Fjölmennur fundur


Íbúafundur var haldinn í Snæfellsbæ þriðjudaginn 17. október síðastliðinn í Félagsheimilinu Klifi. Fyrir svörum á fundinum sátu fulltrúar bæjarins í bæjarstjórn og var Ásbjörn Óttarsson fundarstjóri.
Á fundinum fór Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar yfir fjármál bæjarins árið 2016-2017 í stórum dráttum, bæði tekjur og gjöld. Einnig fór hann yfir helstu fjárfestingar bæjarins fyrir þessi ár og það sem fyrirhugað er á næsta ári. Í máli hans kom fram að bæjarfélagið er vel rekið og hafa skuldir þess lækkað síðustu þrjú ár og skuldahlutfall af reglulegum tekjum lækkað. Snæfellsbær hefur bæði á þessu ári og því síðasta staðið í miklum fjárfestingum og framkvæmdum og er stefnt á að halda því áfram.
Á fundinum spunnust miklar umræður um kaup bæjarins á Gufuskálum og fyrirhugaðar framkvæmdir bæjarins á Ólafsvíkurvelli. Einnig var fyrirhuguð þjónustumiðstöð við Þjóðgarðinn rædd en skóflustunga að henni var tekin fyrir ári síðan en framkvæmdir eru ekki hafnar. Auk þess voru málefni Rifshafnar rædd en búið er að bjóða út vinnu við að steypa þekju þar án þess að ríkið sé búið að eyrnamerkja peninga í það. Höfnin fjármagnar það verk sjálf til að byrja með og höfðu bæjarstjórnarmenn ekki miklar áhyggjur af því að ríkið stæði ekki við sitt. Ýmis önnur mál voru rædd, málefni Pakkhússins í Ólafsvík bar á góma og safnið sem þar er. Tjaldstæðamál voru rædd en þeim hefur nú verið lokað þetta árið meðal annars vegna veðuraðstæðna enda ekki endilega ráðlegt að auglýsa opnunartíma langt fram á veturinn þar sem ekki er hægt að vita hversu lengi hægt er að hafa þau opin frá ári til árs.
Vel var mætt á fundinn og greinilegt að íbúar hafa áhuga á bæjarfélaginu sem er vel en ekki hefur verið mætt svona vel á íbúafund lengi.

þa/Jökull