Fjörugt kótilettukvöld


Lionsklúbbur Nesþinga stóð fyrir Kótilettukvöldi í Félagsheimilinu Röst á síðasta laugardagskvöld.
Var þetta hið skemmtilegasta kvöld hjá þeim lionsfélögum. Að sjálfsögðu var boðið upp á kótilettur í raspi með grænum baunum, rauðkáli, kartöflum og rabbabarasultu, bræddu smjöri ásamt kaffi og konfekti. Herlegheitin voru elduð og framreidd af lionsmönnum.
Veislustjóri var hinn eini sanni Gísli S. Einarsson sem fór með skemmtisögur af sinni alkunnu snilld einnig skellti hann fram nokkrum fyrripörtum sem gestir áttu að botna og kom margt skemmtilegt út úr því. Fleira var gert til skemmtunar á kvöldinu. Lionsfélagar sungu fyrir gesti kvöldsins og stofnfélagar Lionsklúbbs Nesþinga stýrðu fjöldasöng. Aðgöngumiðinn var happdrættismiði og voru dregnir út veglegir vinningar. Um það bil 100 gestir mættu á kvöldið og skemmtu sér konunglega, varð mörgum að orði að svona viðburður væri vonandi kominn til að vera.

þa