Foreldragreiðslur í Snæfellsbæ

Snæfellsbær samþykkti nýverið að veita foreldrum barna sem bíða þess að komast á leikskóla greiðslur til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar á leikskóla. Ekkert dagforeldri er á svæðinu og því eiga sumir engra kosta völ en að vera heima með barn eftir að fæðingarorlofi lýkur þangað til að leikskólapláss fæst. Getur það skapað töluverð vandræði fyrir foreldra sem bæði eru á vinnumarkaði svo tekjumissir verður af.

Reglurnar taka gildi 1. desember nk. og verða greiðslurnar samsvarandi niðurgreiðslum til dagforeldra á meðan þeir voru starfandi. Þ.e. 36.800 kr. til foreldra í sambúð og 42.600 kr. til einstæðra foreldra.

Ákveðið var að fara þessa leið eftir að fyrirspurn frá ungum foreldrum í fæðingarorlofi barst. Sáu þau ekki fram á að fá leikskólapláss að orlofi loknu.

Í Snæfellsbæ eru tveir leikskólar, Krílakot í Ólafsvík og Kríuból á Hellissandi. Pláss er fyrir 72 börn á Krílakoti á aldrinum 2-6 ára og 45 börn á Kríubóli. Rætt hefur verið að taka inn yngri börn inn á leikskólann og það hefur gerst að yngri börn fái inn en það er einungis þegar laus pláss eru til staðar. Það þyrfti að gera breytingar á leikskólunum svo hægt væri að starfrækja nokkurs konar vöggustofu en ekki er talin brýn þörf á því þar sem enginn biðlisti er til staðar.