Frá Grunnskólanum í Stykkishólmi

Í þessum litla greinarstúfi viljum við stjórnendur Grunnskólans í Stykkishólmi segja ykkur frá þeim áhrifum sem ný persónuverndarlög hafa á skólastarfið. Eins og þið vonandi flest hafið tekið eftir höfum við undanfarin ár unnið að því að opna skólastarfið og gera það sýnilegra fyrir samfélaginu. Til þess höfum við meðal annars notað samfélagsmiðla en inni á Facebook sem dæmi er stór hluti bæjarins. Skólinn hefur haldið úti öflugri Facebooksíðu og minna öflugri Instagramsíðu, ef svo má að orði komast.

Við getum ekki lengur notað þá miðla því þeir uppfylla ekki öryggiskröfur, annars vegar því þeir eigna sér allar myndir sem settar eru á síðurnar og hýsingin er utan Evrópusambandsins og uppfylla ekki staðla nýrra persónuverndarlaga.

Ný persónuverndarlög banna notkun fyrrgreindra samfélagsmiðla, annars vegar vegna þess að myndir sem birtar eru þar inni komast í eigu þeirra sem reka þessa miðla og hins vegar vegna þess að þeir eru vistaðir utan Evrópu sem samkvæmt Evrópusambandinu er ekki talið nægilega öruggt.

Okkur stjórnendum finnst þetta miður því það er eðli skólastarfs að innan veggja skólans gerast á hverjum degi markverðir hlutir sem gaman er að segja frá. Nú þurfum við því að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Við ætlum að leggja enn meiri áherslu á heimasíðuna og viljum við benda ykkur á hana sem og myndasafnið okkar sem þar er: https://grunnskolinn.stykkisholmur.is/nam-og-kennsla/myndasafn-2018-2019/

En þó svo að það sé margt við þessi nýju lög sem okkur finnist krefjandi og hamlandi höfum við kosið að líta á þau sem gott tækifæri til þess að gera marga hluti betur en við höfum hingað til gert. Sem dæmi um það eru geymsla persónulegra gagna sem nú verða öll geymd á einum stað, eldvarnarrými sem mjög fáir hafa lykil að.