Frí námsgögn

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna þeim fjölda sveitarfélaga sem hafa ákveðið að námsgögn verði grunnskólabörnum að kostnaðarlausu.
Samtökin hafa frá árinu 2015 staðið fyrir vitundarvakningu og áskorunum til yfirvalda um að virða réttindi barna til gjaldfrjálsrar grunnskólamenntunar eins og Barnasáttmálinn kveður á um. Í gjaldtöku felst einnig mismunun sem börn eiga rétt á vernd gegn.

Í vor var mennta- og menningarmálaráðherra afhentur undirskriftalisti með á sjötta þúsund undirskriftum þar sem skorað var á yfirvöld að breyta grunnskólalögum og afnema gjaldtöku fyrir námsgögn.

Nú hafa 26 sveitarfélög stigið skrefið til fulls og ákveðið að námsgögn verði ókeypis. Meðal þessara 26 eru bæði Grundarfjarðarbær og Snæfellsbær. Málið verður tekið fyrir á fundi bæjarráðs í Stykkishólmi í dag fimmtudaginn 17. ágúst. Skv. upplýsingum frá bæjarstjóra er kostnaður við þetta verkefni ekki mikill miðað við önnur útgjöld vegna grunnskólans en kostnaðaráætlun við rekstur GSS á þessu ári er um 270.000.000 kr.

Umræða á samfélagsmiðlum um frí námsgögn hefur verið allnokkur nú í aðdraganda nýs skólaárs. Veltir fólk því fyrir sér hvað felist í námsgögnunum því í mörgum skólum er nauðsynlegt að vera með tölvur eða spjaldtölvur við námið. Til eru skólar sem bjóða nemendum upp á afnot af spjaldtölvum frá 8.-10. bekk en aðrir leggja til efni sem oftast ratar á hina hefðbundnu innkaupalista grunnskólanna. Stutt er í upphaf skólaárs en GSS verður settur á þriðjudaginn og voru innkaupalistar birtir fyrir komandi skólaár strax vor.

am/frettir@snaefellingar.is