Gaman að gefa

Föstudaginn 7. júlí sl. afhentu kvenfélagskonurnar Sólrún Guðjónsdóttir og Mjöll Guðjónsdóttir formaður Gleym mér ei í Grundarfirði, krabbameinsdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss veglega gjöf. Gjöfin samanstendur af fjórum 32 tommu sjónvörpum sem sett verða á tveggja manna stofur á deildinni og tveimur 50 tommu sjónvörpum sem fara á eins manns stofur. Kvenfélagið færði deildinni einnig veggfestingar og þráðlaus heyrnartól að gjöf við sama tækifæri. Á deildinni 11 E eru fjórar tveggja manna stofur sem áður höfðu aðeins eitt sjónvarp hver en með þessari gjöf eru komin tvö sjónvörp á hverja stofu sem gerir sjúklingum vistina vonandi aðeins léttbærari. Einstaklingsstofurnar eru sjö og eru nú allar komnar með góð sjónvörp þökk sé þessari höfðinglegu gjöf kvenfélagskvenna í Grundarfirði.

Kvenfélagið Gleym mér ei stóð fyrir Góugleði fyrir konur í Grundarfirði í vor og er þess gjöf keypt fyrir hagnað af happdrætti Góugleðinnar.