Gestastofan í þjóðgarðinum komin inn á fjárhagsáætlun ríkistjórnar

Mynd: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Mynd: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Ársfundur Umhverfisstofnunar var haldinn s.l. föstudag.  Þar ávarpaði Sigrún Magnúsdóttir Umhverfis- og auðlindaráðherra fundinn og sagði m.a.:

“Í lok vetrar fékk í hendur ágæta vinnu um hvernig styrkja mætti gott samstarf enn betur á milli Umhverfisstofnunar og Landgræðslunnar . Sameiginlegir snertifletir eru margir og starfsfólk beggja stofnana búa að dýrmætri þekkingu sem mikilvægt er að nýta í þeirri vegferð sem framundan er við að gæta að gæðum landsins. Öllum er ljóst að við sem erum varðliðar umhverfisins stöndum frammi fyrir nánast óþekktum áskorunum, sem er hinn sívaxandi fjöldi ferðamanna. Ég bind því miklar vonir við samþættingu verkefna stofnanna, þannig að við getum gengið hratt og öruggt til verka. Bæði Landgræðslan og Umhverfisstofnun eru með starfsstöðvar víða um land og ef samstarf þeirra getur eflt mátt og getu þeirra vítt og breitt um landið  – er það stórkostlegur ávinningur.

Þessu tengt og að dreifingu ferðamannasvæða víðs vegar um landið þá horfi ég til þjóðgarðsins á Snæfellsnesi sem er í umsjón Umhverfisstofnunar.

Fyrir meira en 40 árum ályktaði Eysteinn Jónsson um stofnun þjóðgarðs sem bar heitið „Þjóðgarður undir Jökli. Á undanförnum árum hefur starfsemin tekið stakkaskiptum en þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður fyrir 15 árum síðan til að vernda bæði sérstæða náttúru og mjög merkar sögulegar minjar.

Góðir gestir!

Ég flyt ykkur gleðitíðindi.

Hin langþráða bygging gestastofu í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi – á Hellissandi – er komin inn í fjárhagsáætlun ríkisstjórnar, alls um 300 m.kr. Við hefjumst handa strax. Þetta verður mikil búbót og bylting fyrir þjóðgarðinn og fyrir Snæfellsnes og eykur án efa aðdráttarafl svæðisins til muna.

Landvarsla verður efld víða um land í takt við mikla þörf og er aukning upp á um 20%, sem verður veitt í landvörslu fyrir árið 2016. Verkefnin eru ærin og til að bæta öryggi þeirra sem sækja okkur heim verður landvarsla styrkt enn frekar við Mývatn, að Fjallabaki og á Hornströndum svo fátt eitt sé nefnt.“

Sjá ræðuna alla hér.