Getum við kannski lært eitthvað af Norðmönnum?

S.l. helgi komu hingað til Snæfellsness Norðmennirnir Eivind Brenna og Elisabeth Mellbye.  Eivind og Elisabeth eru kennarar að mennt en hafa komið að stofnun og vinnu fyrsta svæðisgarðs Noregs, Valdres sem er myndað af sex bæjarfélögum í fjalllendi Noregs þar sem 18.000 íbúar búa.  Þau funduðu með sveitarstjórnarfólki á Snæfellsnesi, skoðuðu svæðið og héldu opinn fund í Grundarfirði mánudaginn 6. maí.  Þau komu hingað til lands á vegum svæðisgarðsverkefnis sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.  Eivind er stjórnarformaður Valdres svæðisgarðsins og samtaka norskra svæðisgarða.  Norsku svæðisgarðarnir eru orðnir 5 talsins og amk 3 nýir í undirbúningi.  

S.l. helgi komu hingað til Snæfellsness Norðmennirnir Eivind Brenna og Elisabeth Mellbye.  Eivind og Elisabeth eru kennarar að mennt en hafa komið að stofnun og vinnu fyrsta svæðisgarðs Noregs, Valdres sem er myndað af sex bæjarfélögum í fjalllendi Noregs þar sem 18.000 íbúar búa.  Þau funduðu með sveitarstjórnarfólki á Snæfellsnesi, skoðuðu svæðið og héldu opinn fund í Grundarfirði mánudaginn 6. maí.  Þau komu hingað til lands á vegum svæðisgarðsverkefnis sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.  Eivind er stjórnarformaður Valdres svæðisgarðsins og samtaka norskra svæðisgarða.  Norsku svæðisgarðarnir eru orðnir 5 talsins og amk 3 nýir í undirbúningi.  

Undirbúningur að stofnun Valdres hófst árið 2003 en það er ekki fyrr en árið 2007 að skrifað er undir 10 ára samning sveitarfélaganna og fyrirtækja á svæðinu um svæðisgarðinn.  90% sveitarstjórnarmanna þessara sveitarfélaga samþykktu verkefnið í upphafi og skipa þeir 12 stjórnarsæti, fyrirtæki á svæðinu 10 sæti og fylkið eða sýslan 2 sæti.  Ástæða þess að farið var út í verkefnið í upphafi einkum þrennt:  

a) Unga fólkið sem fór til framhaldsnáms kom ekki til baka. 

b) Fækkun varð í landbúnaði á svæðinu

c) Ferðaþjónustuuppbygging.  

Ekki var leitað til fjárframlaga til ríkisins og er svæðisgarðurinn fjármagnaður af sveitarstjórnarstiginu en er þó mun betur í stakk búinn til að sækja styrki og fjármagn inn á fjárveitingu ríkisins en áður, þar sem svæðið er stærra og íbúar fleiri.  Fram kom í máli þeirra á opna fundinum að svæðisgarður sé í raun afkvæmi grasrótarinnar á svæðinu og sé samkomulag í ákveðinn tíma um að sameinast um stefnu svæðisins, ímynd þess og áherslur.  Auk þess þjappar það íbúum svæðisins saman undir merkjum svæðisgarðsins, þvert á pólitískar línur og sveitarfélög.

Árangur svæðisgarðsins má m.a. merkja í auknum fjölda gesta á hótelum á svæðinu og aukna vörumerkjavitund almennings í Noregi.  

Fram kom í máli Eivinds að í upphafi hafi vissulega ekki allir verið þátttakendur en bæst við á síðari stigum. Miklu máli skipti einnig að sérstaða svæðisins sé dregin fram hvort heldur er á landsvísu eða heimsvísu.  

Að mati Eivinds felst galdurinn í því að upphefja sitt eigið konungsríki ef svo má að orði komast og kynna það á eigin forsendum.  Takist að skapa umræður um það utan svæðisins meðal fólks eða í fjölmiðlum hefur það í för með sér margfeldisáhrif sem skila sér í „frægð“ svæðisins.  Þar með greiðir nafnið eitt ákveðna götu, varanna á markaði sem kemur framleiðendum svæðisins vel.  Þess má geta að nýlega opnaði matarmarkaður í Osló sem opinn er allt árið þar sem fastur sölubás með vörum frá Valdres er staðsettur við hlið t.d. sælkeravöru og vína frá Frakklandi.  

Stofnun svæðisgarðsins hefur leitt af sér aukna fjölbreytni í störfum og ný fyrirtæki hafa orðið til, önnur eflst.

Eivind og Elisabeth lýstu hrifningu sinni yfir Snæfellsnesi og sögðu íbúana hafa allt í hendi sér, frábærlega fjölbreytt svæði, þjónustu og menntun í fremstu röð, þau hefðu t.d. séð fleiri veitingahús á Snæfellsnesi heldur en í Valdres.  

Til að kynna sér nánar verkefnið um svæðisgarðs Snæfellsness er ógrynni áhugaverðra upplýsinga á vefsíðu verkefnisins 

www.svaedisgardur.is af margskonar toga.