Gistinætur á tjaldsvæðinu í Stykkishólmi

Sumarið á tjaldsvæðinu hefur verið nokkuð gott og fjölgun í öllum mánuðum frá fyrra ári nema júlí skv. tölum frá Golfklúbbnum Mostra sem sér um tjaldsvæðið. Þar hefur þó líklega áhrif að fimm helgar voru í júní og þar með datt stærsta ferðahelgi ársins inn í júní. S.l. þrjú ár hefur tjaldsvæðið verið opið út september. Árið í fyrra var metár og allt stefnir í að svo verði einnig í ár.

Athygli vekur að fjölgun er talsverð í jaðarmánuðunum maí og september en tölurnar nú fyrir september sýna aðeins fjölda gistinátta fyrir fyrstu fimm daga mánaðarins. Þjónustuhús á tjaldsvæðinu verður líklega lokað í lok september en eftir það og eitthvað inn í nóvember verður sá hluti Golfskálans opinn sem þjónustar ferðamenn, að sögn Eyþórs Benediktssonar formanns Mostra.

Nýlega fór fram umræða um opnunartíma tjaldsvæða í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar og kom þá fram að víða er opið allt árið á landsbyggðinni. Það er ekki lengur þannig að það séu einungis tjöld á tjaldsvæði því gistibílarnir eru líklega stærsti hlutinn af gestum og eru þá eflaust síður bundnir við veðráttuna, sem aftur leiðir af sér þá staðreynd sem birtist í tölunum að tímabilið lengist.

am