Haldið upp á sjómannadag í Snæfellsbæ

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Snæfellsbæ að venju um síðustu helgi. Var þetta í annað skipti
sem sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur sameiginlega en í þriðja skiptið sem sjómannahófið er haldið sameiginlega. Hátíðarhöldin hófust á föstudagskvöldinu með skemmtisiglingu, farið var á þremur bátum, þeim Guðmundi Jenssyni SH, Sveinbirni Jakobssyni SH og Ólafi Bjarnasyni SH. Að siglingu lokinni var boðið í grillveislu í sjómannagarðinum ásamt tónlistardagskrá. Kirkjukór Ólafsvíkur flutti nokkur lög, Garðar Kristjánsson og Jóhannes Stefánsson spiluðu og sungu nokkur lög einnig söng hin unga og efnilega Sara Dögg Eysteinsdóttir nokkur lög.
Myndaðist góð stemmning í sjómannagarðinum þó blési dálítið um gesti.
Hátíðarhöld laugardagsins voru hefðbundin, um morguninn var dorgveiðikeppni við höfnina og fór árlegt Kvennahlaup ÍSÍ fram þennan sama dag. Eftir hádegi tók við dagskrá við höfnina en keppt var í kappróðri, flekahlaupi, trukkadrætti og fleiru. Einnig buðu N1 og Menningarnefnd Snæfellsbæjar upp á sýningu frá Sirkús Íslands. Fiskmarkaður Íslands og Fiskmarkaður Snæfellsbæjar buðu upp á hoppukastala fyrir börnin. Gestir á hafnarsvæðinu gátu svo gætt sér á súpu í boði Þín verslun Kassinn, Magnúsar SH, Matthíasar SH, Egils SH og Álfs SH var það mál manna að súpan hefði heppnast sérlega vel. Hátíðarhöldum laugardagsins lauk svo með veglegu sjómannahófi í Félagsheimilinu Klifi. Veislustjóri kvöldsins var Jón Jónsson eða Jónsi í Svörtum fötum og fór hann á kostum, Jónsi ásamt hljómsveitinni í Svörtum fötum sáu svo um að halda uppi fjörinu fram á nótt.
Á sjómannahófinu voru sjómannskonur heiðraðar og að þessu sinni voru það þær Arnheiður Matthíasdóttir og Svandís Jóna Sigurðardóttir. Áhafnirnar á Bárði SH og Esjari SH tóku áskorunum frá síðasta sjómannahófi og komu með frábær skemmtiatriði, Bárður SH bauð upp á söng Karlakórsins Heiðbjartar og áhöfnin á Esjari hafði útbúið mjög svo skemmtilegt myndband þar sem þeir gæddu sér á Surströmming með tilþrifum. Hátíðarhöldum helgarinnar lauk svo á sjómannadeginum sjálfum með athöfnum í sjómannagarðinum í Ólafsvík og félagsheimilinu Röst Hellissandi þar sem aldraðir sjómenn voru heiðraðir og ræðumenn dagsins fluttu ræður, í Ólafsvík flutti Örvar Már Marteinsson ræðu dagsins og var faðir hans Marteinn Gíslason heiðraður. Á Hellissandi var Hafsteinn Júlíusson heiðraður en hátíðarræðuna flutti Kolbrún Ívarsdóttir og sjómannakór Hellissands og Rifs söng nokkur lög einnig söng Alda Dís Arnardóttir. Unga kynslóðin fjölmennti svo í íþróttahúsið á Hellissandi þar sem leikhópurinn Lotta sýndi sumarleikritið sitt um Gosa. Slysavarnarkonur í Sumargjöf og Helgu Bárðardóttur stóðu svo að sjómannakaffi í björgunarstöðinni Von sem vel var sótt enda svignuðu borðin undan kræsingunum.
þa/Bæjarblaðið Jökull