Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Ljósleiðarinn í Helgafellssveit

3Y6A5157Um síðustu helgi hófust framkvæmdir við ljósleiðaravæðingu í Helgafellssveit. Ekki byrjaði fyrsti verkdagur allt of vel þegar stór grafa kafsökk í svokallaðri Hreppstjóramýri á Arnarstaðahæð. Tók heilan dag að ná henni upp aftur og hefur verkið gengið eftir áætlun síðan. Hlutafélag í eigu Helgafellssveitar, Gagnaveita Helgafellssveitar ehf, stendur fyrir framkvæmdinni sem er upp á u.þ.b. 55 milljónir króna. Það eru verktakar af Austurlandi sem sjá um lagningu ljósleiðarans og vinna á vöktum alla daga en Telnet ehf sér um tengivinnu á kerfinu sem Radíóver ehf hannaði. Sótt hefur verið um tengingar á yfir 50 staði í sveitarfélaginu og e.t.v. fleiri staðir í bígerð. Tengingum við ljósleiðara verður þannig komið á við sveitabæi, sumarhús og fleiri staði eins og t.a.m. virkjanirnar. Þá munu íbúar, lögbýli, fyrirtæki og fleiri fá stöðuga nettengingu en hingað til hefur verið rekið þráðlaust net í samstarfi við EMAX. Fyrir minna en 4 vikum síðan tilkynnti fyrirtækið að slökkt yrði á þráðlausa netinu 1. september og þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi tekið þátt í uppbyggingu og rekstri kerfisins sá fyrirtækið ekki möguleika á að halda kerfinu opnu þar til ljósleiðarinn væri kominn á, en verklok í ljósleiðaralagningunni eru áætluð fyrir næstu áramót.
Heimtaugargjald í þessu verki er 165.000 kr. pr. tengingu og verður tengigjald innheimt mánaðarlega kr. 2600 sem, að sögn Hilmars Hallvarðssonar sem á sæti í stjórn Gagnaveitu Helgafellssveitar ehf , er hið venjubundna gjald sem almennt er innheimt af öllum tengileiðum landsmanna á þessu sviði. Gagnaveitan hefur sótt um styrki í verkefnið en vonir standa til að það verði sjálfbært með tímanum. Fjarskiptasjóður styrkir ekki þessa framkvæmd.