Sameining eða samstarf?

ssvS.l. fimmtudag héldu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi framhaldsaðalfund sinn í Búðardal. Ný stjórn var kosin og hún skipuð 12 manns og þar af einum fulltrúa úr Stykkishólmi: Hafdísi Bjarnadóttur en formaður var kosin Ingveldur Guðmundsdóttir sjö af tólf stjórnarmönnum eru konur.
Á aðalfundinum var m.a. rædd ný skýrsla um möguleika og nokkurra valkosta um sameiningar á Vesturlandi og áhrif þeirra. Höfundar skýrslunnar eru Vífill Karlsson og Torfi Jóhannesson.
Tilurð þessarar skýrslu er sú að árið 2010 var gerð skýrsla um svipuð mál þar sem lagt var mat á kosti þess og galla að sameina öll sveitarfélögin á Vesturlandi í eitt sveitarfélag. Sú skýrsla sýndi þrátt fyrir fjárhagslegan ávinning og styrkingu faglegrar þjónustu mætti búast við staðbundnum neikvæðum áhrifum á gæði nærþjónustunnar og lýðræðið. Í framhaldinu vaknaði áhugi á að skoða nánar umfangsminni sameiningar sveitarfélaganna á Vesturlandi ásamt greiningu á mögulegum samstarfsverkefnum.
Erlendar skýrlsur sýna að geta til að veita betri þjónustu eykst við sameiningu en jafnframt dregur úr lýðræðinu. Í skýrslunni, sem er um margt áhugaverð, kemur fram að íbúum fækkar í sveitum en fjölgar á þéttbýlisstöðum. Samstarf í sveitum við nærliggjandi sveitarfélög um þjónustu er víða þekkt ekki síst á Snæfellsnesi.
Meðal annars efnis í skýrslunni er sérstaklega er skoðuð sameining Helgafellssveitar við Stykkishólm og síðan sameining Snæfellsness. Niðurstöður eru þær helstar að í tilfelli Stykkishólms og Helgafellssveitar yrði ekki um mikla breytingu að ræða frá núverandi stöðu. Hugsanlegt er talið að sameiningin gæti falið í sér meiri möguleika í atvinnuþróun. Sökum þeirrar íbúaþróunar sem á sér stað í dreifbýli og sýnt er fram á í skýrslunni eru þó rökin með sameiningu nokkur. Auknar skyldur sveitarfélaga t.d. með tilflutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga er þó eitthvað sem smærri sveitarfélögum gæti reynst erfitt að uppfylla nema t.d. að semja um þjónustukaup á þeim þáttum við annað sveitarfélag, eins og reyndar á við í þessu samhengi. Varðandi sameiningu Snæfellsness í eitt sveitarfélag er niðurstaðan ekki eins afgerandi. Þar gera fjarlægðir hugmyndina flóknari. Búast má við nokkuð jákvæðum áhrifum af sameinuðu sveitarfélagi á Snæfellsnesi þar sem gæði þjónustunnar batni en aðgengið versni hinsvegar. Viðbúið er að sameinað Snæfellsnes eigi meiri möguleika á að sporna gegn óheppilegri byggðaþróun, en þó alls ekki mikið því svæðið starfar nú þegar mikið að þessum málum og má í því samhengi nefna Svæðisgarðinn. Helst er að lýðræðislegur þáttur við mögulega sameiningu versni. Hinsvegar má búast við rekstur og efnahagur sveitarfélagsins styrkist frá því sem nú er.
Í samandregnum niðurstöðum skýrslunnar segir: „Mikill vilji er til staðar fyrir auknu samstarfi sveiarfélaga á Vesturlandi. Rekstrarlegur ávinningur af samstarfi í stað sameininga yrði kannski ekki eins mikill og við sameiningar en hann myndi ekki bitna á kjörsókn, aðgengi að þjónustu og samheldni. Samstarf gæti líka aukið gæði þjónustu og gert það mögulegt að sveitarfélgin réðu við fleiri opinber verkefni sem ríkið hefur rekið fram til þessa líkt og gerist við sameiningar. Það virðist því vera annar valkostur að horfa frekara til samstarfs sveitarfélaga á Vesturlandi.“

Skýrslan í heild sinni hér!