Íbúafundur um atvinnumál


Íbúafundur var haldinn á Hótel Stykkishólmi miðvikudaginn 4.október s.l. Umfjöllunarefnið var nytjun lífríkis Breiðafjarðar og skipulagsmál miðbæjar og fleiri svæða í Stykkishólmi. Fundurinn stóð yfir í rúma tvo tíma og tæplega 70 manns mættu til fundarins.

Fyrsta erindi kom frá Jónasi P. Jónassyni frá Hafró um Hörpudiskinn. Athyglisvert var í erindi Jónasar og í umræðum á eftir, að svo virðist sem veiðar í einhverju magni munu ekki fara af stað fyrr en eftir ca. 7-10 ár jafnvel. Frá því að tilraunaveiðar hófust að nýju fyrir örfáum árum hafa svæði verið vöktuð og talið mjög vandlega þar. Þróunin sýnir að töluvert er að fjölga af krossfiskum og grjótkrabba og ógna þær tegundir báðar hörpuskelinni hvor á sinn hátt. Veiðhlutfall verður í öllu falli minna í framtíðinni. (hafogvatn.is)

Næstur steig í pontu Karl Gunnarsson frá Hafró og fjallaði um þang og þara í Breiðafirði. Nýlega hófust rannsóknir á þeim tegundum, en fram kom í máli Karls að enn vantar töluvert upp á að hægt sé að segja til um það út frá rannsóknargögnum hvað óhætt er að slá mikið t.d. af klóþangi í Breiðafirði. Rannsóknir fóru af stað í fyrrasumar.
Verkefnið var að meta magn klóþangs í firðinum, endurvöxt og áhrif þangtekju. Ekki hefur tekist að fjármagna rannsóknir á áhrifum tekju en vonast er til að það takist sem allra fyrst. Skýrsla um rannsóknina bíður birtingar. Þéttleiki þangsins var skoðað á 41 stöðvum um fjörðinn en hann reyndist mjög mikill sem og lífmassinn. Endurvöxtur klóþangsstofnsins er talinn vera 4-8 ár.
Arnór Snæbjörnsson frá Atvinnuvegaráðuneytinu fór yfir lagaumhverfi öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni sem nýlega var afgreitt á Alþingi.

Róbert Stefánsson forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands tók næstur til máls og fjallaði um sjálfbæra nýtingu auðlinda Breiðafjarðar.
Sjálfbærnihugtakið nær yfir jafnvægi samfélags, umhverfis og efnahags og helst þurfa samfélagsþættirnir og efnahagsþættirnir allir að rúmast innan umhverfsþáttanna ef sjálfbærni á að nást. Rannsóknir sýna að lífríkinu fer hrakandi í heiminum á meðan efnahagur eykst og fólksfjölgun heldur áfram. Róbert bar upp þá spurningu hvort lífríkið bæri það magn þara- og þangtekju sem ákveðin verður? Hann spurði einnig hvort nýtingin verði sjálfbær og hvort hún ógni ekki öðrum þáttum í vistkerfinu? Þang og þari er uppstaða fæðu fyrir margar tegundir m.a. hörpudisk og krækling og þaraskógarnir eru einnig búsvæði annarra tegunda eins og t.d. smáþorska. Áhrif nýtingar þangs og þara hafa aldrei verið rannsökuð hér á landi! Hann telur þó ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af nytjaþörungum en hugsanlega af öðru lífríki.

Því næst var komið að skipulagsmálum. Þar fóru Bæring Bjarnar Jónsson og Silja Traustadóttir frá GlámuKím arkitektastofu yfir skipulagsvinnu fyrir Stykkishólm. Aðalskipulagið var rætt og hugsanlegar breytingar á því með tilliti til framtíðaratvinnuhátta o.fl. Hafnarsvæði við Skipavík var einnig rætt og möguleikar þar í stöðunni.

Í umræðum á eftir erindunum tóku margir til máls og voru fundarmenn áhyggjufullir um lífríki Breiðafjarðar í tengslum við þang og þaramálin en einnig lýsti fólk yfir áhyggjum yfir fyrirhugaðri staðsetningu þörungaverksmiðju við Skipavík. Annars voru umræður góðar og fundurinn gagnlegur.

Upptökur frá fundinum er að finna á snaefellingar.is

am