Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Innbrot í heimahús, maður handtekinn.

A.m.k. tvö innbrot voru framin í heimahús í dag annarsvegar á Hellissandi og hinsvegar í Grundarfirði. Í báðum tilfellum var komið að hinum óboðna gesti svo ekki tókst honum vel upp í þessi skipti. Bæði hús voru ólæst og því greið leið inn. Viðvaranir um innbrotið og hvatning til fólks að læsa hýbýlum sínum og bifreiðum gekk eins og eldur í sinu um samfélagsmiðlana í dag um það leiti sem lögreglan hafði hendur í hári gerandans að sögn Þórðar Þórðarsonar lögreglumanns á Snæfellsnesi. Hinn handtekni, sem er af erlendu bergi brotinn, var færður til lögreglu á Akranesi en hann er einn af góðkunningjum lögreglunnar, búsettur í Reykjavík og var einn á ferð. Öruggt er talið að um viðkomandi sé að ræða sem geranda í báðum brotum, þar sem lýsing vitna sem komu að manninum var nokkuð góð. Væntanlega kemur í ljós eftir því sem líða tekur á daginn hvort honum hafi tekist að fara inn á fleiri stöðum og ættu íbúar að leita af sér allan grun með það.

Fréttir af innbrotum á landsbyggðinni hafa verið áberandi í fjölmiðlum og því kemur það á óvart að enn séu hýbýli fólks ólæst! Eins og dæmin sanna þá getur þetta komið upp á hvar sem er. Hitt er svo annað að það er um að gera að virkja nágrannavaktina og standa saman gegn óöld sem þessari.