Jóla- og nýárskveðja frá Anok margmiðlun

Út er komið síðasta tölublað Stykkishólms-Póstsins á vegum Anok margmiðlunar ehf. Blaðið sem er eitt af elstu bæjarblöðum landsins hefur komið út í 25 ár og í 13 ár hefur Anok gefið blaðið út. Árgangar Stykkishólms-Póstsins eru varðveittir á Landsbókasafni og verða vonandi aðgengilegir í rafrænu formi á árinu 2019. Fréttaveitan Snæfellingar sem fylgt hefur útgáfu Stykkishólms-Póstsins, fyrst á slóðinni stykkisholmsposturinn.is síðar á snaefellingar.is lifir eitthvað fram á nýja árið, lengur ef einhverjir eru áhugasamir um að taka það verkefni að sér.

Anok margmiðlun er nú að verða 19 ára gamalt fyrirtæki og hefur frá árinu 2005 haft aðsetur í Stykkishólmi. Útgáfa Stykkishólms-Póstsins hefur verið fastur kjarni í starfsemi fyrirtækisins, en önnur verkefni eru það fyrirferðarmeiri og verður við þessi tímamót mögulegt að sinna þeim enn frekar og betur.

Velunnarar Stykkishólms-Póstsins eru margir þessi 25 ár og eru þeim hér með færðar bestu þakkir fyrir sinn þátt í blaðinu, sem í senn var mikilvægur og ómissandi í rekstri þess.

Lesendum óskum við farsældar á nýju ári með þökk fyrir þau gömlu.

Útgefendur og starfsfólk