Kosningar

Hagstofa Íslands hefur í tilefni af 100 ára fullveldisafmælinu veitt aðgang að sögulegu talnaefni í samfelldum tímaröðum. Þannig má til gamans glöggva sig á fróðleik t.d. sem tengjast sveitarstjórnarkosningum í gegnum tíðina. Þátttaka í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi jókst frá 1950 til 1974 þegar hún náði hámarki en þátttakan hefur minnkað undanfarin ár og var dræmust árið 2014. Kosningaþátttaka kynjanna hefur verið nokkuð jöfn frá 1974, þátttaka karla var heldur meiri á áttunda og níunda áratugnum en frá 1994 hefur þátttaka kvenna verið ívið meiri. Með sameiningu sveitarfélaga undanfarin ár hefur kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum fækkað til muna.

Árið 1836 fóru fyrstu bæjarstjórnarkosningar fram í Reykjavík en þá voru innan við 7% Reykvíkinga með kosningarétt.  Í Reykjavík og Hafnarfirði fengu giftar konur kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna árið 1907 með sömu skilyrðum og karlar. Þannig gátu giftar konur tekið þátt í kosningunum í Reykjavík og Hafnarfirði frá 1908.

Mest kosningaþátttaka árið 1974

Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum jókst frá 1950 til 1974 en hefur minnkað undanfarin ár. Hina auknu þátttöku á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar má að mestu skýra með dræmri kosningaþátttöku í sveitahreppum fyrst í stað sem smám saman jókst án þess þó að ná sambærilegu hlutfalli og hún var í kaupstöðum og svokölluðum kauptúnahreppum þess tíma. Í sveitarstjórnarkosningum var þátttakan mest árið 1974 (87,8%). Til samanburðar má nefna að í alþingiskosningum var mest kosningaþátttaka árið 1956 (92,1%) og við forsetakjör árið 1968 (92,2%). Dræmust var kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum árið 2014 (66,5%). Með sameiningu sveitarfélaga undanfarin ár hefur kjörnum fulltrúum fækkað til muna. Árið 1950 voru þeir alls 1.143, þar af voru 1.136 karlar og einungis sjö konur. Árið 2014 voru kjörnir fulltrúar 504, 282 karlar og 222 konur. Þess má geta að árið 1938 voru 215 sveitarfélög í landinu og fjölgaði þeim um 14 fram til ársins 1950 þegar þau voru flest. Við síðustu kosningar til sveitarstjórna árið 2014 voru þau 74.

Kosningaþátttaka hér í Stykkishólmi hefur ávallt verið góð en árið 2014 hafði hún dalað örlítið frá 2010 eða 87,39% en var 88,15% árið 2010. Á kjörskrá 2014 voru 826, 402 komur og 424 karlar nú árið 2018 eru 833 á kjörskrá, 406 konur og 427 karlar.

am/frettir@snaefellingar.is