Lætur smíða nýjan Bárð

Útgerðarmaðurinn og skipstjórinn Pétur Pétursson skrifaði undir samning við dönsku skipasmíðastöðina Bredgaard Bådeværft fimmtudaginn 14. september. Samningurinn sem var
undirritaður á Íslensku sjávarútvegssýningunni í Kópavogi hljóðar upp á nýjan bát sem leysa
mun hin fengsæla Bárð SH 81 af hólmi en Pétur hefur gert hann út síðan árið 2001.
Pétur hóf útgerð frá Arnarstapa árið 1983 á rúmlega tveggja tonna trébátnum Bárði og hafa bátarnir farið stækkandi síðan. Nýi Bárður verður stærsti trefjaplastbátur sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð. Verður hann 25,18 metra langur og 7 metra breiður, mun hann rista 2,5 metra. Hann verður því mun stærri en sá Bárður er Pétur gerir út núna en sá bátur er 15 metra langur, rúmlega 4 metra breiður og ristir 1,5 metra. Nýi Bárður mun verða um það bil eitt ár í smíðum en áætlað er að smíði bátsins hefjist á næstu misserum og er áætlaður afhendingartími í desember 2018. Báturinn verður fyrst og fremst hannaður sem netabátur en með þann möguleika að einnig verði hægt að gera hann út á dragnót. Það er alltaf ánægjulegt þegar bátaflotinn er endurnýjaður og bættur óskum við Pétri innilega til hamingju með þetta.
þa/Jökull bæjarblað