Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Leiðinlegur pistill um sveitastjórnarkosningar

Flott, nú hef ég náð athygli ykkar. Með fyrirsögninni. Nú er ég ekki að fara að ræða um hvað það er frábært að búa í Hólminum í rólegheitunum með börn þannig að Gísli Sveinn, stilltu þig gæðingur og ekki loka blaðinu strax. Nú ku vera spennandi tímar framundan. Um tíma var áþreifanlegur órói í bænum þar sem margur reynsluboltinn stígur nú út úr Ráðhúsinu á vit annarra ævintýra. Þegar ég var brottfluttur Hólmari á hliðarlínunni fylgdist ég reglulega með bæjarmálunum og tók eftir hvernig nýja bókasafnið klauf bæjarbúa í tvennt. Ég ætla ekki að ræða þetta bókasafn hér, en mig langar að ræða aðeins um leiðindi og illt umtal. Ég fékk tækifæri til að láta gott af mér leiða nýlega og bauðst sæti á nýjum (nánast nýjum) lista H-listans. Ég ákvað að hoppa á þann vagn, verandi búin að hoppa á allskonar óþægilega vagna nýverið, Mjölnisvagninn, Maraþonvagninn. Nú á ég bara eftir Crossfit-vagninn og Tenerife-vagninn. Það er í vinnslu. Ég er mjög stolt af þessari ákvörðun. Það ættu allir að vera sem vilja leggja sitt af mörkum fyrir bæjarfélag sitt. En ég fékk líka aðeins í magann. Settist rólega niður og beið eftir að mínir nánustu kæmu og hentu eggjum í húsið mitt. En viti menn, langflestir klöppuðu mér á bakið, mjög fáir slógu mig í hnakkann og ákváðu að ég væri hægri-öfgamaður og að afi minn væri að kúvendast í gröf sinni. Sem ég stórefast um. Afa heitnum var mjög umhugað um bæinn sinn og eyjarnar og væri líklega mjög ánægður með þátttöku mína í samfélaginu. En hvað er þá svona leiðinlegt við þetta? Nokkrir reyndir úr bransanum sögðu mér að búa mig undir almenn leiðindi frá samferðarfólki í bænum, að fólk hætti að heilsa mér og að ég myndi jafnvel missa vini mína. Í alvöru? Út af bæjarstjórnarkosningum?

Nú er enginn saklaus af leiðindum. Við höfum öll talað illa um einhvern. Allir sem halda öðru fram eru að segja ósatt. Það er eins og að segjast aldrei hafa pissað í sturtu. Hrein lygi. Mér finnst allt í lagi að gera gott grín. Við verðum að gera það, annars hefur þorrablótsnefndin ekkert til að vinna með. En það má ekki blanda svona mikilli pólitík í þetta. Við erum sveitafélag. Við erum eins og stórt húsfélag. Við verðum að geta unnið saman, rætt saman og verið vinir. En við verðum aldrei öll sammála um hvernig best er að reka þetta fallega fjölbýli okkar. Reynið að brjótast inn á eitthvað ættarmót á Laugum í sumar og gáið hvort þið finnið þrjá til fjóra ættliði sem eru sammála um allt. Það er ekki hægt. Hvort sem þeir eru búnir með sinn hvorn kassann af útileguvolgum Slots-um og jafnvel farnir að teygja sig í pelann. Það er líka deginum ljósara að það gefur manni lítið að sitja heima og tuða. Ef maður vill breytingar, þá þarf maður að stíga fram og framkvæma þær sjálfur. Nú eru tvö flott framboð í gangi, mikið af allskonar framfærilegu fólki á listum. Hlutlaust mat. Mikið fagnaðarefni. Getum við haft gaman af þessu og gert fallegt góðlátlegt grín og látið af leiðindum? Getum við unnið saman í því að byggja bæinn okkar upp og gera hann betri? Getum við heilsast þó við séum á sitthvorum listanum? Fundið farveg? Ég er búin að líta í eigin barm, fleyta kerlingar niðri í Maðkavík og hugsa minn gang. Ég er til í þetta. En þú?

Anna Margrét Pálsdóttir
8. sæti H-listans 2018