
Lionsklúbburinn í Stykkishólmi færði á dögunum Stykkishólmskirkju gjöf til þess ætlaða að hægt sé að senda út beint hljóð og mynd frá útförum í Stykkishólmskirkju til dvalarheimlisins í Stykkishólmi og St. Fransiskusspítala. Verðmæti gjafar Lionsmanna er tæplega 1 milljón króna. Lionsklúbburinn fékk Anok margmiðlun ehf til liðs við sig við framkvæmd verkefnisins. Tilraunaútsendingar hafa staðið yfir í nokkurn tíma en nú er loks endanlegur búnaður kominn upp og í gagnið. Á dvalarheimilinu hefur verið tekið á móti útsendingum í allan vetur og hefur það mælst mjög vel fyrir hjá heimilisfólki. Þróunin hefur einnig orðið sú að sálmaskrár við útfarir hafa einnig verið settar á dvalarheimilið og jafnvel boðið upp á veitingar eftir athöfn þar.
Í þessu verkefni fóru saman hagsmunir Stykkishólmsbæjar, Stykkishólmskirkju og Lionsklúbbsins því í tengslum við opið net í Stykkishólmi fyrir gesti og gangandi var sendibúnaður settur upp í kirkjunni sem tengist því verkefni og gagnast sú nettenging einnig í verkefnið fyrir útsendingarnar úr kirkjunni.
Við afhendingu gjafarinnar í Stykkishólmskirkju í vikunni kom fram hjá viðstöddum mikil ánægja með framtak Lionsmanna.