Lionsklúbburinn færir Stykkishólmskirkju gjöf

Agnar Jónasson og Gunnlaugur Árnason frá Lionsklúbbnum, Sr. Gunnar Eiríkur Hauksson sóknarprestur, neðri röð f.v. Hrafnhildur Jónsdóttir deildarstjóri sjúkradeilda HVE, Stykkishólmi, Áslaug I. Kristjánsdóttir sóknarnefndarformaður Stykkishólmssafnaðar og Kristín Hannesdóttir forstöðukona Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi.

Lionsklúbburinn í Stykkishólmi færði á dögunum Stykkishólmskirkju gjöf til þess ætlaða að hægt sé að senda út beint hljóð og mynd frá útförum í Stykkishólmskirkju til dvalarheimlisins í Stykkishólmi og St. Fransiskusspítala. Verðmæti gjafar Lionsmanna er tæplega 1 milljón króna. Lionsklúbburinn fékk Anok margmiðlun ehf til liðs við sig við framkvæmd verkefnisins. Tilraunaútsendingar hafa staðið yfir í nokkurn tíma en nú er loks endanlegur búnaður kominn upp og í gagnið. Á dvalarheimilinu hefur verið tekið á móti útsendingum í allan vetur og hefur það mælst mjög vel fyrir hjá heimilisfólki. Þróunin hefur einnig orðið sú að sálmaskrár við útfarir hafa einnig verið settar á dvalarheimilið og jafnvel boðið upp á veitingar eftir athöfn þar.

Í þessu verkefni fóru saman hagsmunir Stykkishólmsbæjar, Stykkishólmskirkju og Lionsklúbbsins því í tengslum við opið net í Stykkishólmi fyrir gesti og gangandi var sendibúnaður settur upp í kirkjunni sem tengist því verkefni og gagnast sú nettenging einnig í verkefnið fyrir útsendingarnar úr kirkjunni.
Við afhendingu gjafarinnar í Stykkishólmskirkju í vikunni kom fram hjá viðstöddum mikil ánægja með framtak Lionsmanna.