Ljósmyndir Bærings Cecilssonar

Rökkurdagar eru nú haldnir hátíðlegir í Grundarfirði. Eru þeir hluti af Opnum október sem er samstarf á Snæfellsnesi sem á að stuðla að meiri samgangi á milli nágrannasveitarfélaga. Rökkurdagar hófust við hátíðlega athöfn þegar ljósmyndavefurinn Bæringsstofa.is var opnaður. Ljósmyndavefurinn er safn ljósmynda sem fjölskylda Bærings Cecilssonar færði Grundarfjarðarbæ að gjöf eftir andlát Bærings. Grundfirðingar hafa unnið hörðum höndum við að koma myndunum á stafrænt form og má nú sjá afraksturinn á vefnum.

Jóhann Ísberg, ljósmyndari og vefhönnuður, setti upp vefinn og mun halda áfram að vinna að þróun hans.

Myndir Bærings ná yfir meira en 6 áratugi af sögu Grundarfjarðar og þykja ómetanlegar heimildir um sögu byggðar, mannlífs og samfélags sem mikilvægt er að halda utan um. Hægt er að skoða safnið á www.baeringsstofa.is.