Menn eru allavega að tala saman

Sjómenn hafa verið í verkfalli síðan 14. desember og er áhrifa þess farið að gæta víða. Sem dæmi má nefna hafa fiskvinnslur sagt upp starfsfólki víða um landið. Ekki hefur náðst að semja enn sem komið er og er mikill hiti í mönnum ef marka má umræður á samfélagsmiðlum og í fréttum.

Verkalýðsfélag Snæfellinga hélt fund í Grundarfirði í síðustu viku. Vel var mætt á fundinn og var þar 100% samhugur sjómanna að halda kjarabaráttu sinni til streitu. Þó herma heimildir að lítil bjartsýni sé í hópnum um að kröfum þeirra verði mætt.

Þriðji aðili virðist finna fyrir verkfallinu að mestu í dag en það er starfsfólk frystihúsa og fiskvinnslna. Fólkið í landi sem er háð vinnu sjómanna.

Kjaramálin snúast að einhverju leyti að því að endurheimta sjómannaafsláttinn og að losa sjómenn undan því að taka þátt í olíukostnaði. Einnig vilja þeir að útgerðin skaffi þeim vinnufatnað og borgi fyrir fjarskiptakostnað en dæmi eru um að sjómenn borgi bæði búnað og fastan kostnað nettenginga sem getur reynst dýrt þegar skip eru langt utan þjónustusvæðis. Skjótt skipast veður í lofti og staðan breytist hratt dag frá degi enda funda menn stíft þessa dagana til að komast að niðurstöðu.

Sigurður A. Guðmundsson hjá Verkalýðsfélagi Snæfellinga telur það gott að viðræður séu í gangi. Menn eru allavega að tala saman.