Menningarminjarnar

Það blés nú ekki byrlega í orðsins fyllstu merkingu s.l. laugardag þegar ráðstefna um menningarminjar var haldin í Gestastofu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Verðlaunin voru ægilegur öldugangur við Malarrifsvita sem ógurlegt var að sjá, prýðilegar kaffiveitingar í hlýjunni og áhugaverð erindi.

Til máls tóku Guðmundur Stefán Sigurðarson, minjavörður og verkefnisstjóri hjá Minjastofnun Íslands, Ragnhildur Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsnes, Jón Björnsson Þjóðgarðsvörður Snæfellsjökulsþjóðgarðs, Dr. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Jakob Orri Jónsson doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Mikið af minjum við sjávarsíðuna, sérstaklega í Öndverðarnesi, hopar hratt og var þeim vangaveltum komið á framfæri hvort og hvernig ætti að vernda þær. Fornleifauppgröftur við Arnarstapa var einnig skoðaður en þar er ýmislegt að finna í jörðu. Minjar í sjó eru á fjölmörgum stöðum um landið, ekki síst við Snæfellsnes og voru sýndar neðansjávarmyndir í fyrirlestri um þær. Þjóðgarður og Svæðisgarður voru einnig til umræðu og í heild voru þetta afar áhugaverð erindi og fyrir þá sem vilja kynna sér frekar upplýsingar um menningarminjar má benda á vefslóðina: adaptnorthernheritage.eu  Á meðfylgjandi mynd eru fyrirlesarar ráðsetfnunnar.