Met í tónleikahaldi?

Aldrei fyrr hefur framboð af jólatónleikum íslenskra listamanna verið jafn mikið og í ár.
Þrátt fyrir að flestir séu þeir haldnir á höfuðborgarsvæðinu þá er sama sagan að segja á landsbyggðinni, þar hefur framboð aldrei verið meira. Hér á Snæfellsnesi eru fjölmargir tónleikar í farvatninu og hægt að kynna sér úrvalið á vefnum hjá okkur snaefellingar.is.

Fimmtudaginn 30. nóvember verður boðið upp á tónleika í Stykkishólmskirkju undir yfirskriftinni Kyrrð fyrir komandi aðventu. Þar koma fram gítarleikarinn Andrés Þór, hljómborðsleikarinn Karl Olgeirsson og bassaleikarinn Jón Rafnsson og flytja jólalög og sálma sem fylgt hafa íslensku jólahaldi í gegnum áratugina.

Tónlistarflutningurinn er án söngs og í rólegri kantinum sem myndar ákaflega þægilega stemningu sem hentar stundinni og tónlistinni vel. Tónleikarnir marka lok starfsárs Listvinafélags Stykkishólmskirkju 2017 og er frítt inn á tónleikana.