Nýbygging á Hellissandi


Nú á dögunum var tekinn grunnur fyrir nýju húsi þar sem áður stóð Gilsbakki á Hellissandi. Á þennan grunn á svo að flytja nýtt hús sem hefur reyndar verið í byggingu frá því haustið 2012.

Að þessari framkvæmd standa þau hjónin Lúðvík Ver Smárason og Anna Þóra Böðvarsdóttir. Aðspurður að því hvernig hugmyndin að þessu húsi hafi komið til sagði Lúðvík að það hafi svo sem ekkert verið planað í upphafi hvert hlutverkið yrði. „Þegar ég lauk námi í byggingafræði árið 2010 datt mér í hug að teikna hús og í framhaldi af því fannst mér ég verða að smíða það og hófst byggingin árið 2012. Framhaldið var ekkert ákveðið, bara smíða og ákveða svo hvort ætti að selja, leigja eða nýta húsið sjálf. Ég sagði í gríni við vin minn að ég ætlaði að eyða jafnmiklum tíma
í húsið og hann í að spila golf.“ Byggingarstjóri hússins er faðir Lúðvíks, Smári Lúðvíksson og sagði Lúðvík að hann hefði aldrei farið út í þetta verkefni ef hans hefði ekki notið við, ómetanleg hjálp. Föðurbróðir Lúðvíks, Ómar Lúðvíksson er svo meistari að húsinu.

Hefur Lúðvík ekkert verið að flýta sér að byggja húsið heldur unnið að því jafnt og þétt með öðru. Hafa þeir feðgar unnið allt sjálfir. Þessa dagana er hann að vinna í grunninum og stefnir að því að koma húsinu á grunninn fyrir jól og vonast þau hjón til að
hægt verði að taka það í notkun næsta sumar. En hvað stendur til að gera við húsið Segjast þau hjón ekki vera alveg búin að komast að niðurstöðu um það en eru með margar metnaðarfullar og skemmtilegar hugmyndir. Þau eru þó búin að ákveða að þetta á að vera fjölnotahús með einhverskonar greiðasölu sem opin verður fyrri hluta dags þar sem hægt er að koma inn fá sér kaffi og með því, súpu og jafnvel taka með sér prjónanna eða aðra handavinnu. Vilja þau reyna að hafa opið allt árið en ætla að láta öðrum stöðum eftir að vera með kvöldopnun. Einnig langar Önnu Þóru að hafa aðstöðu fyrir jóga og ýmis konar námskeiðshald á efri hæðinni enda er Anna Þóra jógakennari. Eins og áður segir er stefnan sett á að koma húsinu á grunninn fyrir jól og vonast Anna Þóra til að það gangi eftir og að jafnvel verði hægt að hafa smá jólamarkað í húsinu fyrir jól.

þa/Jökull