Nýtt hús tekið í gagnið í desember


Nýja bókasafnshúsið sem verið er að byggja við hlið Grunnskólans er nú á lokastigum framkvæmdarinnar og skv. upplýsingum frá bæjarstjóra er stefnt að flutningi með bókasafnið í desember.

Við sögðum frá því hér í byrjun nóvember að til stæði að Eldfjallasafnið flytti í Hafnargötu 7, þar sem bókasafnið er nú en þær áætlanir hafa breyst því Ásbyrgi flytur þangað inn.Skóla- og félagsþjónustan mun því leigja Hafnargötu 7 þar til nýtt hús verður tilbúið. Í samtali við Stykkishólms-Póstinn segir Sveinn Þór Elínbergsson forstöðumaður Félags- og skólaþjónustu Snæfellsness að flutningar í Hafnargötu 7 verði næstu vikur eða jafnskjótt og bókasafnið hefur verið flutt í nýbygginguna við grunnskólann.

„Við leigjum það þangað til við flytjum inn í nýtt húsnæði Ásbyrgis á lóðinni Aðalgötu 22. Það er fyrirtækið Skipavík sem byggir húsið og leigir Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga undir starfsemi Ásbyrgis til 12-15 ára. Áætluð afhending hússins er við lok október á næsta ári.
Núverandi húsnæði Ásbyrgis er fyrir nokkru orðið of lítið fyrir starfsemina sem hefur sótt í sig veðrið enda hlotið afar góðar viðtökur hjá bæjarbúum, fyrirtækjum og stofnunum. Hróður starfseminnar hefur líka farið víða og forstöðukonan fengið verðskulda viðurkenningu fyrir gagnmerkt brautryðjendastarf sitt við mótun starfseminnar.
Líkt og Smiðjan í Ólafsvík nýtur Ásbyrgi mikillar velvildar og vinarhugs í samfélögunum hér á Snæfellsnesi sem m.a. birtist í góðum viðbrögðum íbúa og fyrirtækja við að senda okkur endurnýtanlegt hráefni sem ella væri hent. Úr því búa starfsmenn þessara hæfingar- og vinnustöðva FSS til nytja- og skrautmuni sem seldir eru vægu verði sem rennur í starfsmannasjóði stöðvanna.
Fyrir tilstuðlan FSS í samvinnu við Vinnumálastofnun getur starfsfólkið og aðrir sótt um atvinnutækifæri með stuðningi í samfélaginu, aðrir fengið örorkuvinnusamninga við hæfi.
Undirtektir fyrirtækja og stofnana hér á Snæfellsnesi hafa jafnan verið góðar. 8 klst vinnudagur í Ásbyrgi og Smiðjunni ásamt vinnu út í samfélögunum verður því fyrir vikið í mörgum tilvikum fjölbreyttur og styrkir hæfingarmarkmið. Ég vil því f.h. FSS og sveitarfélaganna færa íbúum og fyrirtækjum okkar bestu þakkir fyrir mikilsverðan stuðning við uppbyggingu þjónustu við fatlað fólk og aðra með skerta starfsgetu hér á Snæfellsnesi.
Þá sendum við stjórnendum og starfsfólki Dvalarheimilis aldraðra hér í Stykkishólmi, Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Jaðars í Ólafsvík og Grunnskóla Snæfellsbæjar okkar bestu þakkir fyrir að bjóða okkur að kaupa og snæða heita hádegismáltíð hvern dag vinnuvikunnar. Það styrkir góða samfélagsvitund okkar allra.“ segir Sveinn.

Eldfjallasafnið mun því verða áfram í Samkomuhúsinu í óákveðinn tíma. Félagsmiðstöðin X-ið flytur á Skólastíg 11, þar sem Ásbyrgi er núna.

am