Öldungaráð Stykkishólms

Öldungaráð Stykkishólms hélt sinn annan fund á kjörtímabilinu. Í ráðinu sitja Einar Karlsson, Dagbjört Höskuldsdóttir, Brynja Reynisdóttir, Kristín Sigríður Hannesdóttir og Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir sem jafnframt er formaður.
Ráðið setti sér vinnu- og skipulagsreglur á fundinum en ráðið skal vera bæjarstjórn Stykkishólms til ráðgjafar um málefni og hagsmuni sem varða íbúa sveitarfélagsins 67 ára og eldri. Auk þess að vera til ráðgjafar getur ráðið beint tillögum og ályktunum til bæjarstjórnar, nefnda og ráða. Ráðið er þó ekki framkvæmdaaðili. Í samráðsferli er lagt til að bæjarráð kynni stjórn öldungaráðs árlega á fundi, þá þjónustu sem í boði er fyrir eldri borgara og þær hugmyndir og tillögur í fjárhagsáætlunum sem varða eldri borgara. Lögð verður áhersla á samvinnu og samnýtingu á þjónustu sem varðar eldri borgara, svo sem heimahjúkrun og heimilishjálp, iðju og sjúkraþjálfun. Samráðsferlið á að gefa ráðinu hugmyndir um hver staða öldrunarþjónustu er hverju sinni í Stykkishólmi. Öldungaráð vinnur úr þeim upplýsingum og kemur þeim í réttan farveg til kynningar og úrlausnar.

Í umræðum um stöðu félags- og tómstundamála kom fram aðstarf Aftanskins er nokkuð öflugt en ekki eru allir í félaginu og þarf að gera bragarbót í þeim málum að kynna félagið og fá fleiri til þátttöku. Staðan er ekki góð fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér sjálfir á milli staða, til dæmis að sækja sjúkraþjálfun, mæta í dagvistun og taka þátt í félagsstarfi. Ekki er tiltækur akstur sem er skv. lögum á vegum sveitarfélagsins. Öldungaráð leggur áherslu á að úr þessu verði bætt.

am