Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Opinber fyrirspurn til bæjarstjórnar Snæfellsbæjar

Sælt veri fólkið og gleðilegt nýtt ár.

Þann 26. maí 2016 sendi undir­ritaður fyrirspurn á bæjarstjórn Snæfellsbæjar varðandi aðgang að eignarskrá yfir listaverk og gjafir í eigu Snæfellsbæjar. Nú átta mánuðum síðar hefur enn ekki borist svar frá bæjarstjórn varðandi umleitan mína og langar mig af því tilefni að ítreka þessa fyrirspurn og jafnframt minna bæjarstjórn á að ljóst er að íbúar eiga rétt á að fá aðgang að þessum gögnum á grundvelli upplýsingalaga. nr. 140 28. desember 2012. samkvæmt upplýsingum er mér bárust eftir athugun hjá lögfræðingi Innanríkisráðuneytisins.

Fyrirspurn mín varðaði t.d. málverk er gefin voru af Erro (Guðmundi Guðmundssyni) til Ólafsvíkurbæjar 1998, einnig málverk er sjómannadagsráð Ólafsvíkur hefur látið mála og fært bænum að gjöf ásamt fleiri verkum, stórt verk er var utaná sundlaug Ólafsvíkur og gaman væri að fá upplýsingar um hversvegna ekki hefur aftur verið sett upp og einnig óskaði ég upplýsinga varðandi þau listaverk er voru í eigu sveitarfélaganna Neshrepps Utan Ennis og Ólafsvíkurkaupstaðar fyrir sameiningu sveitarfélaganna 1994. Nú veit ég ekki hver staðan var með svonalagað í sveitarfélögunum Breiðuvíkurhrepp og Staðarsveit en ætla að einnig séu varðveitt skrá yfir þann hluta arfleifðar sem til var við sameiningu. Spurt var um öll listaverk, í hvaða formi sem er, málverk, styttur, ljósmyndir og allt sem flokkast sem list og hefur verið fært bæjarfélaginu og fyrrum sveitarfélögunum að gjöf og til varðveislu.

Fyrirspurnin var í þrem liðum og set ég hana hér aftur fram svo bæjarstjórnafólk geti svarað sem fyrst.

A) Hvar er hægt að skoða skrá yfir þessar eignir?

Væntanlega eru þessi verk einhvern staðar skráð í bókhaldi bæjarins, þó ekki væri nema vegna bókhaldsreglna og trygginga. Og væri gagnlegt fyrir áhugasama að geta kynnt sér upplýsingar um nöfn verkanna ásamt nöfnum viðkomandi listamanna, einnig hvenær verkið var gefið, af hverjum og hvert tilefnið með gjöfinni var.

B) Hvar eru þessi verk til sýnis fyrir almenning þannig að sé hægt að njóta þess að skoða þessi verk?

Er ég þá ekki að leitast eftir opnunartíma stofnana eins og bæjar­skrifstofu Snæfellsbæjar.

C) Hefur Snæfellsbær einhverjar áætlanir uppi um að bjóða upp á aðgengi að þessum verkum t.d. með sýningum í sal?

Húsnæði átthagastofu Snæ­fellsbæjar sem notast hefur verið við er óviðunandi húsnæði til að halda sýningar stórra verka einnig er húsnæðið lekt og umferð óviðkomandi á opnunartíma stofnunarinnar truflandi fyrir gesti er koma til að njóta sýninga.

Nú langar mig sem einn eigenda þessar verka, sem sjálfsagt eru milljóna ef ekki tugmilljóna virði, að minna bæjarstjórn á að samkvæmt stjórnsýslulögum er ekki um einkamál að ræða og ítreka ég því enn og aftur ósk um að viðkomandi upplýsingar úr bókhaldi bæjarins verði gerðar aðgengilegar á heimasíðu Snæfellsbæjar sem fyrst.

Ég sendi reyndar ábendingu í sama bréfi um húsnæði í eigu bæjarins sem gæti þjónað hlutverki safnahúss eða sýningarsals ágætlega með tilliti til aðgengi og bílastæða, en það er svokallaður „blái salur“ í félagsheimilinu Klifi, lítil notkun virðist á því húsnæði, þar er sérinngangur, gott aðgengi fyrir fatlaða, einnig er salerni á staðnum og gott sýningarrými.

Menning er eitt af því er gerir okkur að samfélagi, þannig að vonandi sér bæjarstjórn Snæfellsbæjar sér fært að koma á opinberu aðgengi að þessum verkum sem við öll eigum, bæði okkur bæjarbúum ásamt gestum er sækja okkur heim til yndis og ánægju.

Bestu kveðjur.

Snæfellsbæ. 23.1.2017. Árni G Aðalsteinsson.

Svar við fyrirspurn Árna G. Aðalsteinssonar

Þann 2. júní 2016 tók bæjarstjórn fyrir fyrirspurn frá Árna Guðjóni Aðalsteinssyni, dags. 26. maí 2016, varðandi listaverk í eigu Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn svaraði erindinu á þennan hátt:

Listaverk í eigu Snæfellsbæjar eru staðsett í stofnunum bæjarfélagsins, en eru ekki til sýnis fyrir almenning nema þá að þau er hægt að sjá á opnunartíma hverrar stofnunar. Tæmandi listi yfir þessi verk er ekki til, þó var byrjað á slíkum lista í kringum 1998.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að fara í þá vinnu í haust að yfirfara skráninguna og útbúa lista yfir þau, með upplýsingum um höfund, gefanda, tilefni gjafar og staðsetningu.

Þessi bókun er í fundargerð bæjarstjórnar og eru allar fundar­ gerðir bæjarstjórnar opinberlega birtar á heimasíðu Snæfellsbæjar. Það fórst hins vegar fyrir að svara erindinu formlega til fyrirspyrjanda og biðjumst við velvirðingar á því.

Bæjarstjórn er alveg sammála Árna Guðjóni um það að menning sé hluti af okkar samfélagi og leggur bæjarstjórn áherslu á það í árlegum styrkveitingum sínum að styrkja menningarstarfsemi í bæjarfélaginu. Jafnframt að það sé nauðsynlegt að halda vel utan um listaverk í eigu bæjarfélagsins.

Hér er farið örlítið nánar í hvern lið fyrirspurnarinnar:

1. Fyrir nokkuð mörgum árum fór þáverandi starfsmaður Snæfellsbæjar, Albína Gunnarsdóttir, í allar stofnanir Snæfellsbæjar og skráði niður öll listaverk í eigu bæjarfélagsins. Þessi listi hefur því miður misfarist og hefur ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. Skrá yfir listaverk í eigu Snæfellsbæjar er því ekki aðgengileg eins og stendur. Eins og fram kemur í bókun bæjarstjórnar hér að ofan, hins vegar, þá stendur til að endurtaka þessa vinnu og er vonandi að hægt verði að byrja á henni strax í vor.

2. Öll listaverk í eigu Snæfellsbæjar eru staðsett í stofnunum Snæfellsbæjar.

3. Það hefur ekki verið rætt að halda sýningar á listaverkum í eigu Snæfellsbæjar. Það er hins vegar alltaf hægt að skoða þau í stofnununum okkar á opnunartíma hverrar fyrir sig.

Bæjarstjórn þakkar fyrirspurnina og þykir alltaf ánægjulegt þegar bæjarbúar sýna bæjarfélaginu sínu áhuga.