Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Ragnari Má Ragnarssyni bæjarfulltrúa L-lista svarað af gefnu tilefni.

Í síðasta tölublaði Stykkishólmspóstsins skrifar Ragnar Már Ragnarsson bæjarfulltrúi L-listans grein með yfirskriftinni „TÓNLISTARSKÓLABYGGING Í TÆTARAN“. Greinin virðist vera skrifuð í þeim tilgangi að réttlæta þá ákvörðun bæjarfulltrúa L-listans að greiða atkvæði gegn því að bærinn semdi við sóknarnefnd Stykkishólmskirkju um að bærinn greiddi áfram  fyrir afnot stofnana bæjarins af kirkjunni okkar vegna samkomuhalds svo sem vegna tónleikahalds  og margskonar annarra afnota skólanna.

Í byrjun þessa kjörtímabils sem nú er að ljúka var Stykkishólmssöfnuður í miklum fjárhagsvanda og hafði verið í mörg ár. Jafnframt blasti það við að glæsilega kirkjuhúsið okkar þarfnaðist mikilla viðgerða. Í reikningum bæjarins var bókuð allnokkur skuld Stykkishólmssafnaðar við bæjarsjóð. Sú skuld var til komin vegna þess að bæjarsjóður tók að sér að greiða lán sem hvíldi á sókninni í nafni kirkjunnar, en í raun á sóknarnefndarmönnum persónulega,  sem höfðu í góðri trú  gengist í ábyrgð fyrir lánunum safnaðarins hjá tveimur lánastofnunum. Auðvitað gat það ekki gengið að sóknarnefndarfólk greiddi lán sem tekin voru til þess að byggja kirkjuna. Með bréfi dagsettu árið 1999 og undirrituðu er af þáverandi bæjarstjóra, Ólafi Hilmari Sverrissyni, staðfesti  bæjarstjóri þá ákvörðun bæjarstjórnar að bærinn greiddi umrædd lán sem styrk til safnaðarins.

Þær greiðslur voru hinsvegar færðar á viðskiptareikning Stykkishólmskirkju hjá bænum og söfnuðust upp sem skuld kirkjunnar við bæinn. Nokkuð var samt fært til gjalda hjá bæjarsjóði og lækkunar á viðskiptareikningi kirkjunnar einhver árin, en lítið sem ekkert á síðasta kjörtímabili 2010 til 2014 þegar L-listinn réði ríkjum.

Þegar núverandi bæjarstjórn tók við í júní 2014 var „skuld“ kirkjunnar í bókum bæjarins töluverð  og framundan var það stórverkefni hjá sóknarnefnd að gera við þök kirkjunnar. Eftir ósk sóknarnefndar kirkjunnar var tekin um það ákvörðun að bærinn gengi til samstarfs við sóknarnefnd og sóknarprest um að tryggja fjármögnun þeirra nauðsynlegu verkefna sem blöstu við kirkjugestum þar sem þak og gluggar láku vegna skorts á viðhaldi. Eftir vandlega skoðun var sú leið  valin að bærinn greiddi kr. 3.000.000 á ári fyrir afnot skólanna af kirkjunni sem og fyrir önnur afnot bæjarins. Mestur hlutinn var greiddur fyrirfram svo framkvæmdir gætu hafist. Eftir sem áður stóð „gamla skuldin“  í bókum bæjarins, en hefur lækkað og á að falla niður.

En viðgerðarverkinu við kirkjuna okkar er ekki lokið og áfram halda skólarnir og bæjarstjórnin að nota okkar glæsilegu kirkju til samkomuhalds. Því var samningurinn endurnýjaður í þessum mánuði  og samþykktur í bæjarráði og bæjarstjórn, en gegn atkvæðum bæjarfulltrúa L-listans. Auðvitað verður sá samningur endurmetinn ef stofnanir bæjarins hætta að nota kirkjuna vegna þess að bærinn byggi nýtt félagsheimili eða tónlistarhöll hvenær sem það verður.

Vert er að geta þess að samningur var gerður við Hestaeigendafélagið um að bærinn veitti styrk til byggingar glæsilegrar Reiðhallar á svæði félagsins og nemur sá styrkur samtals 18 milljónum króna með niðurfellingu byggingarleyfisgjalda. Samkvæmt samningi hefur Stykkishólmsbær afnot af Reiðhöllinni að tilteknu marki á hverju ári. Ákvarðanir um styrk vegna Reiðhallar  voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn.

Ragnar Már Ragnarsson blandar inn í þessa umræðu um stuðninginn við sóknarnefnd Stykkishólmskirkju áformum um byggingu húss fyrir Tónlistarskólann og skrifar svo skáldlega að teikningar af honum hafi verið sett í „tætarann“ og kosningaloforð H-listans svikin. Ragnar Már Ragnarsson sat sem bæjarfulltrúi ásamt undirrituðum  í verkefnisstjórninni sem sá um undirbúning hönnunar Amtsbókasafnsins og samþykkti teikningar af nýju Amtsbókasafni sem tekið hefur verð í notkun og sannar nú þegar gildi sitt við skólann. Ragnar Már man það væntanlega, að um það var rætt, að þær teikningar sem voru til frá árinu 2010 af tónlistarskólahúsi og stækkun grunnskólahússins austan við núverandi grunnskólahús kæmu til endurskoðunar vegna þess að Amtsbókasafnið nýttist skólanum og með sameiningu bókasafnanna stækkaði það rými verulega sem nýttist í kennslustofur og vinnuaðstöðu starfsmanna skólans. Hvort þar verður byggður stór tónleikasalur á borð við kirkjuna á eftir að koma í ljós. Á vegum H-listans, Lista framfarasinnaðra Hólmara,  hafa engar teikningar verið settar í tætarann og engin kosningaloforð verið svikin.

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar.