Rappað í grunnskólanum

Júlíönuhátíðin hér í Stykkishólmi verður haldin með pompi og prakt í næstu viku. Í tengslum við hátíðina hafa aðstandendur hátíðarinnar farið í samstarf við Grunnskóla Stykkishólms um verkefni með nemendum skólans. Í ár stóð til að Unnsteinn Manúel kæmi að vinna með krökkunum en af óviðráðanlegum orsökum breyttust þær áætlanir en í stað hans kom Arnar Freyr Frostason og Salka Sól Eyfeld og voru það örugglega ekki síðri kandidatar rapp/tónlistarsenunnar að mati krakkanna. Þegar blaðamaður leit inn í vinnustofu hjá Arnari Frey á þriðjudag voru nemendur í hópavinnu að semja sína eigin rapptexta við tónlist sem Arnar Freyr kom með. Í stuttu spjalli við Arnar sagðist hann hafa byrjað mánudaginn að vera með þurra glærusýningu um aðferðir, reglur formsins og hvernig hann byrjaði að rappa, en Arnar er meðlimur í hljómsve itinni Úlfur Úlfur. Hann sagðist hafa þurft að hugsa sig vel um þegar hann var að setja saman glærurnar hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið, til að sýna krökkunum – því hann væri sjálflærður rappari. Hann útskýrði framganginn þegar hann væri að semja lag, skoðaði hrynjanda í textanum og tónlistinni. Hvernig gott væri að telja atkvæði til að passa að tónlistinni, textinn var skoðaður út frá ríminu og svo ræddu þau hvernig væri hægt að aðlaga svo allt passaði saman. Það er fullt af hlutum sem þarf að passa svo þetta heppnist vel. Markmiðið með þessu verkefni hér sagði hann að væri að kenna krökkunum ekki bara að rappa heldur að nýta sköpunarkraftinn og leyfa bullinu að koma fram og flæða líkt og í myndlist og dansi. Markmiðið væri að kveikja áhuga hjá einhverjum nemendum til að verja frítíma sínum í að semja texta, rapp, ljóð eða sögu þá yrði hann glaður, það yrði vonandi upphafið að einhverju.
Á hátíðinni í næstu viku fá íbúar vonandi að heyra afrakstur þessa verkefnis en Arnar sagðist þó ekkert ætla að vera með pressu á þau að fara á svið og rappa, vonandi myndi þó einhverjir taka af skarið!