Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Reyndu bara að halda kjafti, vera sæt og flissa!

Það er stutt síðan KÍTÓN, konur í tónlist voru með tónlistarbúðir hér í Stykkishólmi. Því verkefni lauk með stórskemmtilegum tónleikum á Fosshótel Stykkishólmi þar sem frumflutt voru lög eftir þátttakendur við góðar undirtektir. Nú er svo komið að á alþjóða kvennafrídaginn, í dag, verður eitt þeirra laga gefið út opinberlega en það heitir einmitt KONA. Hljómsveitin sem hefur fengið nafnið Litríki samanstendur af þeim Erlu Stefánsdóttur, Margréti G. Thoroddsen og Myrru Rós Þrastardóttur.

Innblásturinn er aldeilis viðeigandi um þessar mundir sem og alltaf: „Reyndu bara að halda kjafti, vera sæt og flissa!“ eins og segir í færslu frá þeim stöllum. „Kona er stórkostleg satíra þar sem allt kjaftæðið sem konur þekkja því miður of vel, er sett fram í sterku máli og hljóm. Þetta eru ýmsar upplifanir kvenna sem sýna fáránleika þeirra krafna og áreitni sem kvenkynið þarf að þola.
Þetta eru óraunhæfar kröfur sem ungar konur reyna að standa undir á hverjum degi. Þetta er áreiti sem búið er að þagga niður í hundruðir ára.“ segir ennfremur.

am