Riddarar götunnar

Í síðasta mánuði tóku nokkrir félagar í vélhjólaklúbbnum Griðungum á Snæfellsnesi, sig saman og lögðu upp í hringferð um landið á fákum sínum. Átta félagar voru í ferðinni og var á fyrsta degi ekið að Laxárvirkjun í Þingeyjarsveit og gist á Kambi þar í grennd. Á öðrum degi var ekið til Seyðisfjarðar og til stóð á þriðja degi að aka á Klaustur og þaðan heim á fjórða degi. Sökum veðurs breyttist ferðaáætlun og snúið var við frá Seyðisfirði og ekið á Snæfellsnes á einum degi. Félagarnir átta komu úr Stykkishólmi, Grundarfirði og af Skaganum og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, sem Gretar D. Pálsson tók, var veðrið með þeim félögum á ferðalaginu. Vélhjólaklúbburinn Griðungar var stofnaður árið 2011 og telur 20 félaga.