Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Sameiningarmál dvalarheimilisins og sjúkrahússins

Sjúkrahús Stykkishólms

Málefni dvalarheimilisins og sjúkrahússins í Stykkishólmi rata á dagskrá margra funda í stjórnkerfi Stykkishólmsbæjar, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og á vettvangi ráðuneytanna. En skv. upplýsingum frá bæjarstjóra þá standa viðræður yfir milli bæjarins og heilbrigðisráðuneytis vegna samnings um hjúkrunarrými í sjúkrahúsinu og sameiningu Dvalar- og hjúkrunarheimilisins annarsvegar og Sjúkrahúss Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi hinsvegar. „Ég lít svo á að samningar séu komnir á loka stigið. Framkvæmdir við umfangsmiklar endurbætur á sjúkrahúsinu í tengslum við stækkun hjúkrunardeildar er hluti af verkinu en er á vegum Ríkiseigna sem sjá um viðhald og endurbætur sjúkrahússins. Hluti þess verks mun bæta aðstæður hjá Bakdeildinni. Fjárveiting til þess að hefja verkið liggur fyrir og næsta skrefið að móta samninginn og fá hann staðfestan hjá viðkomandi aðilum í stjórnkerfinu. Þegar samningur hefur verið undirritaður og heilbrigðisráðuneytið staðfest að verkefnið sé á forgangslista ráðuneytisins gengur hann til Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir sem þarf að staðfesta verkið samkvæmt lögum. Þess er að vænta að málið skýrist fljótlega og er þetta allt unnið í góðu samstarfi við stjórnendur hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.“ segir Sturla Böðvarsson bæjarstjóri í svari við fyrirspurn Stykkishólms-Póstsins.

am/frettir@snaefellingar.is