Listalíf

Dorthe Højland 4Listvinafélag Stykkishólmskirkju hleypir af stokkunum sumardagskrá í Stykkishólmskirkju á 17. júní þegar opnuð verður ljósmyndasýning í safnaðarheimili kirkjunnar, eins og fram kemur á öðrum stað í blaðinu. Tónleikar er fastur liður í starfsemi Listvinafélagsins en einnig tekur félagið virkan þátt í skipulagningu þjóðbúningahátíðarinnar Skotthúfunnar hér í Stykkishólmi. Fyrstu sumartónleikar Listvinafélagsins verða einmitt á Skotthúfuhátíðinni fyrstu helgina í júlí. Þá heimsækir norrænn djasskvartett kirkjuna og flytur frumsamið efni sem innblásið er af náttúru Íslands og verða myndir sýndar á meðan á tónleikum stendur. Fyrir kvartettinum fer Dorthe Hojland sem leikur á saxófón, Jacob Hojland píanó, Andreas Dreier á bassa kemur frá Noregi og Henrik Nielsen spilar á trommur. Yfirskrift tónleika þeirra er Norrænar sögur, Nordic Stories. Fimmtudaginn 14. júlí kemur Lára Eggertsdóttir organisti og leikur á orgelið og fær með sér Dorthe Hojland sem leikur á saxófón. 28. júlí koma söngvararnir í Olga Vocal Ensemble og halda tónleika í kirkjunni og flytja lög undir Víkingaþema m.a. eftir hljómsveitina Hjaltalín og Abba. Öllum Olgum er að sjálfsögðu boðið á tónleikana. Fleiri tónleikar eru þegar bókaðir og verða kynntir betur þegar nær dregur.
Af dagskrá Skotthúfunnar er það helst að frétta að verið er að leggja lokahönd á skipulagninu hennar en þema hennar í ár tengist Jörundi hundadagakonungi og tengslum hans við íslensku þjóðbúningana. Pop-Up saumastofa verður sett upp í vinnustofu Ingibjargar Ágústsdóttur í Tang og Riis og opnar á föstudagsmorgni en þar mun Oddný Kristjánsdóttir þjóðbúningasaumakennari til margra ára og eigandi Þjóðbúningastofunnar ráðleggja áhugasömum varðandi þjóðbúninga, hvort sem um einstaka búningshluta er að ræða eða heilu búningana. Oddný verður með efni og annað tilheyrandi búningunum til sýnis.
Þjóðdansafélagið Sporið í Borgarnesi mætir á svæðið og sýnir þjóðdansa og ýmis tónlistaratriði í tengslum við þemað verða á dagskrá. Fyrilestur um mansöngva Sigurðar Breiðfjörð er á dagskrá og kveðið verður efni eftir Sigurð. Að venju er þeim uppábúnu gestum sem taka þátt í dagskránni boðið í pönnukökur og kaffi í Norska húsinu á laugardeginum.

 

frettir@snaefellingar.is