Söfnin

Safna- og menningarmálanefnd hélt sinn hundraðasta fund 12. september s.l. Í fundargerð kemur fram að gestum á söfnin hefur fækkað á þessu ári. Ræddar voru ástæður þess. T.d. hafa hóparnir sem komið hafa á Eldfjallasafnið í tenglsum við Harald Sigurðsson ekki skilað sér í sumar. Fyrir liggur að fara á í endurbætur á gamla samkomuhúsinu sem hýsir Eldfjallasafnið og ljóst að safnið getur ekki verið í húsnæðinu á meðan. Viðræðum um rekstur safnsins í samstarfi Stykkishólmsbæjar og Vulkan ehf, félagi Haraldar Sigurðssonar standa yfir.
Ekki var starfsmaður á Vatnasafninu í sumar og töldu fundarmenn að það hefði haft áhrif á gestafjölda. Fernir tónleikar voru haldnir í sumar í Vatnasafninu.

Gólf í Vatnasafni var slípað upp s.l. vor í tengslum við afmælishátíð þess og hefur reynst erfitt að þrífa það síðan. Yfir standa viðræður um endurskoðun samnings um Vatnasafnið.
Norska húsið stóð fyrir fermingar-sýningu, sumarsýningu, afmælis-hátíð Norska hússins í tilefni 185 ára afmælis hússins, þjóð-búningahátíðinni Skotthúfunni og tók þátt í dagskrá Danskra daga á árinu. Sigurlína Sigurbjörnsdóttir hefur hafið störf á Byggðasafninu í 50% stöðu. Starf hennar felst í endurbótum á skráningum og skráning ljósmynda í Sarp sem er skráningarkerfi safna á landsvísu. Rekstur byggðasafnsins fluttist á árinu til Stykkishólmsbæjar. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 kemur fram að tekjur fyrir árið 2017 eru áætlaðar um 2.5 milljónir af aðgangseyri og krambúð. En rekstrarkostnaður safnsins er áætlaður rúmlega 20 milljónir. Ýmsir styrkir koma inn í starfsemina s.s. frá Safnaráði, Húsafriðunarnefnd, héraðsnefnd Snæfellinga og sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi.
Vert er að leiðrétta það hér að tölur um heimsóknir í Norska húsið sem birtust í Stykkishólms-Póstinum 15. september voru ekki réttar fyrir árið 2015 í prentútgáfunni en þá voru gestir 4.784 talsins. Réttar tölur eru á snaefellingar.is

Nanna Guðmundsdóttir hefur hafið störf á Amtsbókasafninu og hefur safnið opnað á ný eftir lokanir í sumar.

Fram kemur í fundargerðinni að næstu skref varðandi söfnin sé frekara markaðsstarf til kynningar á þeim.
/am