Strætó á sunnanverðu Snæfellsnesi

Ólína GunnlaugsdóttirNú þegar almenningssamgöngur eru að verða að veruleika í Breiðuvíkurhreppi, í fyrsta sinn í sögu Íslandsbyggðar, svo ég viti, er ekki úr vegi að rifja aðeins upp sögur af samgöngumálum á svæðinu. Þá er best að fara í bók Didda frænda í Bárðarbúð sem gerir þessum mikilvæga málaflokki íbúa hér góð skil í bók sinni Veröld stríð og vikurnám undir Jökli.

Þann 16. september næstkomandi mun Strætó aka frá Vegamótum að Hellnum, um Staðarsveit og Breiðuvík, föstudaga og sunnudaga. Í þrjú sumur hefur strætó ekið frá Hellisandi að Arnarstapa í gegnum óbyggðan þjóðgarðinn en ekki hefur verið talin ástæða að þjónusta byggðina frá Arnarstapa í gegnum Breiðuvík og Staðarsveit. Strætóbílstjóri er Þórunn Hilma á Neðri Hóli Staðarsveit. Strætó á Snæfellsnesi er gerður út frá Grundarfirði og er í eigu fyrirtækisins Snæfellsnes Excursions; Lísu og Hjalta.

En víkjum nú að frásögum Didda í bók hans. Undir kaflanum „Höfuðbaráttumál hreppsbúa“ telur hann upp nokkur; vegamálin, læknamálin, rafmagns- og vatnsveitumálin, símamálin og hafnargerð. Það kemur ekki á óvart þar sem sum þessara mála eru enn þann dag í dag baráttumál og hafa þá „internetmálin“ bæst við. Árið 1931 var tekinn fyrsta skóflustungan á Útnesvegi í Axlarhlíð, sem er náttúrlega fyrir ofan Öxl. Það er algerlega rétt að tala um skóflustungu í þessu samhengi þar sem haldið var síðan áfram að vinna með skóflum en hökum bætt við. Þetta bar þann árangur að níu árum seinna var kominn bílfær vegur að Hamraendum og menn gátu rétt úr bakinu þar til ráðist var í næsta áfanga. Enda voru menn að jafna sig í nokkur ár eftir þetta og sjálfsagt ekki litist á blikuna þegar hraunin voru framundan. Nokkrir ungir menn vildu þó ekki láta þar við sitja, þrír bræður á Hnausum og ungur maður á Hamraendum ruku út með haka sína og skóflur og pjökkuðu í gegnum Hnausahraunið en gekk það heldur seint og það þótti engin smá bylting þegar ýturnar komu til sögunnar, segir Diddi. En alla vega, sex árum síðar var hægt að komast á jeppum út á Stapa. En nú var Hellnahraunið framundan og ekki lagðist það vel í menn enda var hægt að troða sér í gegnum hraunið fyrir ofan þar sem þjóðvegurinn er núna, í gegnum svo kölluð Þrengsli (getið hvers vegna þau voru kölluð Þrengsli) og komast þannig í króklaleiðum niður í Stapagil og þannig á Arnarstapa, þ.e.a.s. þegar menn komu frá Hellnum eða Dagverðará. Fólk hikaði ekki við að fá sér bíla þó ekki væru vegirnir og Doddi frændi á Dagverðará fékk sér fljótlega einn slíkan þó hann keyrði ekki sjálfur en lét pabba minn, sem þá var um fermingu, aka. Sjáið þið fyrir ykkur fermingarbarnið djöflast um á Willisnum hér um allar trissur, ennþá má sjá förin hér frá Hellnahrauni og út allan núverandi þjóðgarð.

Árið 1948 birtist hér maður sem er enn í dýrlingatölu og var talað um þegar ég var að alast upp. Svo hét hann ekki smá krúttlegu nafni – DÚLLI! Og það hvernig Diddi frændi orðar þennan viðburð og ég heyri fyrir mér þungan og virðinguna í orðunum: „Kominn var nú fram á sjónarsviðið maður að nafni Haraldur Guðjónsson sem átti átta tonna ýtu“. Maður velkist ekki í vafa um að þarna voru merkilegir hlutir að fara að gerast því þessi Dúlli, hann dúllaði sig í gegnum Hellnahraunið á litlu ýtunni sinni, á „skömmum tíma“! Og nú vildi fólk aldeilis færa sig upp á skaftið. Diddi skrifar: „Eftir þetta afrek Haralds ýtustjóra fóru menn að eygja veg alla leið til Hellisands …“. Diddi talar að sjálfsögðu aldrei um „Dúlla“, honum hefur væntanlega þótt það heldur óvirðulegt uppnefni á „Haraldi ýtustjóra“.

Sunnan við veginn yfir Hellnahraun stendur klettur sem mér var sagt að hefði orðið til við vegagerðina enda sést að það hefur verið sorfið utan af honum. Þennan klett vil ég kalla Dúlla og finnst að mætti setja á hann skjöld til minningar um þennan afreksmann samgangna undir Jökli. Í dag horfum við kannski enn frekar til þeirra sem pjökkuðu í gegnum landið með haka og skóflum en það voru verkfæri sem fólk þekkti og kunni að beita. Því hefur undrun þess verið mikil þegar hægt var að gera sömu hluti á einhverjum vélum á miklu skemmri tíma. Því væri ekki úr vegi að minnast þessara knáu vegavinnumanna, t.d. með styttu í hakalíki við afleggjarann að Rauðfeldargjá þar sem ferðamenn streyma óhikð í gegnum hraunið, óvitandi um blæðandi og blöðrum þaktar hendur íbúa þessarar sveitar. En nú var ekki hægt að stoppa og árið 1949 var kominn vegur að Drangahrauni, þ.e. hraunið frá Svalþúfu að Purkhólum, yfir Drangahraunið árið 1953 og ári seinna frá Purkhólum í gegnum Lónsland og í gegnum Beruvíkurhraun. Diddi sér ástæðu til að koma því á framfæri að „vegagerð á útnesinu hefur verið löng raunasaga“ en „ráðamenn á Hellisandi hafa alla tíð stutt við bakið á Breiðvíkingum þegar vegamálin eru annars vegar“. Veit ég að þar á hann meðal annars við vin sinn og félaga, Skúla heitinn Alexandersson. Því þegar samgöngumálin voru uppi á borði, þá fetuðu menn sömu slóð þó ekki væru þeir samstíga í pólitíkinni. Bárðarbúðarfólkið var heitt sjálfstæðisfólk, afi Kristján sagðist trúa á Ólaf Thors næst guði en eins og allir vita var Skúli fulltrúi vinstri afla, eins og Dagverðarárfólkið þaðan sem pabbi minn er. Afi gat ekki verslað í kaupfélginu en tók skip til Stykkishólms til þess. Kaupfélgið var á Arnastapa, í 5 km fjarlægð :). Hallgrímur afi og Helga amma á Dagverðará voru í meira lagi vinstri sinnuð og hafði ég gaman af því að rekast á póst til ömmu sem hafði aldrei komist í hennar hendur.

Þannig var að Diddi, bróðir mömmu minnar frá Bárðarbúð hér á Hellnum, var landpóstur. Hann bað mig einhvern tímann að taka ýmisa pappíra hjá sér til varðveislu. Þar á meðal var eitthvað af pósti sem hafði orðið eftir hjá póstþjónustunni eins og gengur og gerist þegar fólk fellur frá eða flytur í burtu og vil ég taka fram að um slíkan póst var að ræða til ömmu, hún var þá meira og minna flutt frá Dagverðará. En, ég gat ekki staðist að kíkja í þetta bréf til hennar og viti menn, þetta var fréttabréf frá Samtökum herstöðvaandstæðinga. Það má alveg leika sér að því að sjá fyrir sér að Sjálfstæðismaðurinn (nú skrifað með stórum staf sakv. nýjum ritreglum, líkt og Framsóknarkona) Diddi í Bárðarbúð væri ekki að spreða slíkum pósti neitt áfram. Til gamans má geta þess að meðan afi í Bárðarbúð gat ekki hugsað sér að eiga viðskipti við samvinnuhreyfinguna var Doddi frændi á Dagverðará, bróðir Helgu ömmu, formaður Framsóknarfélags Breiðuvíkurhrepps og fulltrúi þess í mörg ár. Þetta fólk sameinaðist nú allt þegar tilfinningarnar báru pólitíkina ofurliði í formi hjónbands foreldra minna, Kristínar í Bárðarbúð og Gunnlaugs á Dagverðará. Pabbi hefur sjálfsagt boðið mömmu á rúntinn á nýju vegunum í hreppnum og þá var ekki aftur snúið, hvorki hjá þeim né ferðamönnunum sem nú kúka nú í vegkantana þar sem áður rann svitinn af ungum Breiðvíkingum með skóflu og haka í hönd; Sjálfstæðismönnum, Framsóknarmönnum og Kommum 🙂

Ólína Gunnlaugsdóttir