25 ára vígsluafmæli. Viðgerðir utanhúss í sumar.

3Y6A8851Um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því Stykkishólmskirkja var vígð. Þess verður minnst í messu n.k. sunnudag þegar Frú Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands predikar. Í síðustu viku var haldinn aðalsafnaðarfundur Stykkishólmssafnaðar og bar ýmislegt til tíðinda. Farið var yfir kirkjustarf vetrarins en bæði var sunnudagaskóli og starfið fyrir 10-12 ára mjög vel sótt auk þess sem eldri borgarar mættu vel í eldriborgarasúpuna sem var fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Ágætis messusókn var í vetur og starf kirkjukórsins mjög öflugt. Fram kom í máli stjórnar að úttekt hefur verið gerð á ástandi kirkjunnar og liggur fyrir að fara þarf í umfangsmiklar viðgerðir á þaki og múr kirkjunnar. Samþykkt var á fundinum að fara í múrviðgerðir nú í sumar og hljóðar kostnaðaráætlun í þær upp á kr. 33.000.000. Samþykkt var á fundinum að taka tilboði frá K16 ehf upp á kr. 29.780.000 Sótt var um í jöfnunarsjóð kirkjusókna fyrir yfirstandandi ár og fékkst styrkur upp á kr. 7.000.000 og næstu tvö ár verður einnig sótt um fjármagn í sjóðinn til viðgerða. Arionbanki mun fjármagna framkvæmdina en opnaður verður bankareikningur þar sem fólki og fyrirtækjum gefst tækifæri til að styðja kirkjuna í þessum framkvæmdum.
Framkvæmdirnar hefjast í maí og verður lokið í október.
Unnið hefur verið í alllangan tíma í því að fá á hreint eignarhald á jörðinni Baulárvellir, sem skráð er sem eign kirkjunnar í bækur safnaðarins og hefur verið um langan tíma. Kallað hefur verið eftir gögnum bæði frá Þjóðarbókhlöðu og Þjóðskjalasafni um eignarhald á jörðinni og tóku upplýsingar sem þar komu fram af öll tvímæli um eignarhaldið. Búið er að hnita jörðina, sem er um 900 hektarar og hefur Lárentsínus Kristjánsson lögfræðingur aðstoðað kirkjuna við þessi mál. Send hafa verið út bréf vegna framkvæmda sem farið hafa fram án leyfis Stykkishólmskirkju á jörðinni. Eitt af umræðuefni fundarins var stækkun kirkjugarðsins, hún er langt á veg komin en unnið er að frágangi girðinga og sáluhliðs við garðinn. Kjósa þarf nefnd um kirkjugarðinn skv. reglum og fjármál garðsins verða í kjölfarið aðgreind frá öðrum reikningum sóknarinnar. Rekstur gömlu kirkjunnar, sem einnig er aðskilinn frá öðrum reikningum sóknarinnar, gengur mjög vel og tekjur umfram rekstrarkostnað nokkrar.
sp@anok.is