Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

70 eða 144 milljónir

Gretar D. PálssonÍ umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í Skessuhorninu þann 9.október lætur Lárus Á Hannesson forseti bæjarstjórnar Stykkishólms m.a. hafa eftir sér í tengslum við málefni Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi „Búið var að eyrnamerkja 144 milljóna til þessa verkefnis en nú er það blásið af í nýju fjárlagafrumvarpi“ og Guðbjartur Hannesson fyrrverandi velferðarráðherra lætur hafa eftir sér „Við vorum búin að finna 144 milljóna króna fjármögnun á þessu ári í þetta en það er slegið af“. Tilgangur þeirra með slíkri framsetningu er eflaust sá að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur, nema að framsetningin sé alfarið á ábyrgð blaðamannsins. Nú ætla ég ekki að efast um vilja þeirra beggja til að hugur til framkvæmda hefði gengið eftir. En staðreyndirnar eru þessar:

Áætlaður framkvæmdakostnaður við verkið í heild, hönnun umsjón, eftirlit og frágangur lóðar þar meðtalinn er 1114 milljónir króna á núverandi verðlagi. Af þessari fjárhæð kæmu 713 milljónir úr ríkissjóði, 208 milljónir frá sveitarfélagi og reiknað er með að unnt verði að fá framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra .

 Á fjárlögum ársins 2013 voru samþykktar 49,1 milljón til undirbúnings og hönnunar vegna fyrirhugaðra verkefna við St. Fanciskussjúkrahúsið í Stykkishólmi, að auki voru 20,9 milljónir sem lentu inn á sjúkrahúsið á Siglufirði sem sammælst var um að ættu að vera inni á Stykkishólmi. Þetta eru samtals 70 milljónir.

Framkvæmt hefur verið fyrir 60 milljónir við heildarhönnun og við breytingar á fyrstu hæð sjúkrahússins og við lóð. Gert er ráð fyrir að ljúka á þessu ári við aðgerðir tengdar matsal og matargeymslum sem áætla má að kosti um 20-2 5milljónir króna til viðbótar.  Nú liggur fyrir fjáraukabeiðni til að ljúka þessari vinnu enda var hún alls ekki að fullu fjármögnuð í núgildandi fjárlögum. Ef 144 milljónir hefðu legið fundnar og eyrnamerktar á borðinu væri ekki þörf á að leita eftir framlagi á fjáraukalögum.

Vakin er athygli á að samþykkt Alþingis í fjárlögum tók til undirbúnings og hönnunar en ekki framkvæmda. Heimild fékkst þó hjá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir til þess að fara í breytingar á matsal og lóð.

Af framansögðu er ljóst að það er rangt að halda því fram að aðgerðir hafi verið blásnar af eða slegnar af og fjárveiting afturkölluð þar sem ljóst er að framkvæmt hefur verið nú þegar fyrir 60 milljónir og að verkið fer 13-15 milljónir króna umfram upphaflegar fjárheimildir á árinu sem eru 70 milljónir.

Fyrrverandi ráðherra hefur eflaust skýringar á hvar þær 74 milljónir liggja til viðbótar sem hann svo skemmtilega orðar að „búið væri að finna í verkið“. Fyrir þeim liggja ekki heimildir í fjárlögum 2013.

Vilji fyrrverandi ráðherra stóð efalaust til þess að gera meira, en hann skorti sýnilega getuna eða pólitíska stöðu innan ríkisstjórnar til að ná því fram. Það sést skýrast í fjárlögum 2013. Þá er þess að geta að engir samningar um framkvæmdina eru til eða undirritaðir af hálfu Stykkishólmsbæjar og annarra framkvæmdaaðila, en slíkt er m.a. forsenda fyrir umsókn og úthlutun úr framkvæmdasjóði aldraðra.

Bæjarfulltrúar D-listans hafa ítrekað bent á að Stykkishólmsbær hafi ekki nálgast verkið af nægjanlegri kostgæfni og í reynd ekki undirbúið sinn þátt svo neinu nemi. Enn er hægt að bæta úr því þó seint sé.

Ég hef þá trú að allir þingmenn kjördæmisins séu sammála um mikilvægi þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið um málefni St. Fanciskusspítalans og samstarf HVE og Stykkishólmsbæjar í öldrunarmálum og þá ekki síður bráðnauðsynlegri eflingu Háls- og bakdeildar sjúkrahússins. Því treysti ég því að þingmennirnir,  stjórn og starfsfólki HVE ásamt bæjarfulltrúum Stykkishólmsbæjar  leggist á eitt um að vinna að þessu heilshugar áfram hvar í flokki sem menn standa.

Miklivægast er nú að mínu mati að leggja áherslu á frekari uppbyggingu og eflingu Háls- og bakdeildar m.a. með heimild í Fjárlögum 2014 til ráðningar læknis og sjúkraþjálfara.

Til að tryggja framgang verkefnisins þurfa allir aðilar að halda rétt á málum og fara að þeim lögum og reglum sem lúta þarf við svo stóra framkvæmd . Það á ekki síst við um  forsvarsmenn Stykkishólmsbæjar sem hafa ekki samning í höndunum við ráðuneyti heilbrigðismála og fjármála eins og hefði átt að vera með þessa framkvæmd . Ef svo hefði verið væri staðan önnur og sterkari.

Gretar D. Pálsson