Æskan

Æskulýðs- og íþróttanefnd fundaði í síðustu viku. Agnes Helga Sigurðardóttir lagði fram tillögu þess efnis að virkja ungmennaráð bæjarins sem hefur verið lítið virkt undanfarin ár. Hún sótti ráðstefnu í Svíþjóð sl. vor í tengslum við ungmennaráð og kynnti hún fyrir nefndinni nýtt fyrirkomulag ungmennaráðs og hvernig mætti virkja þátttakendur. Með tillögunni á að virkja ungt fólk í mótun starfsins en ungmenni í Stykkishólmi hafa sýnt mikinn áhuga á því að halda úti starfi fyrir þennan aldurshóp. Einstaklingar á aldrinum 13-25 ára myndu skipa ungmennaráð og vera virkir þátttakendur í starfinu. Samþykkti nefndin tillöguna og bíður hún nú samþykktar bæjarstjórnar.

Nefndin ræddi einnig sín á milli á fundinum hvernig einfalda mætti stefnumyndun lýðheilsustefnu Velferðarráðuneytisins innan bæjarfélagsins. Unnið verður að því áfram að komast að hagræðingarniðurstöðu í framkvæmd stefnanna, t.d. með því að sameina þær.