Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Afmælisútgáfa

IMG_0105Nú rétt fyrir jólin 2013 gaf Kór Stykkishólmskirkju út geisladiskinn Ubi Caritas et Amor í tilefni þess að 70 ár voru liðin á síðasta ári frá því að kórinn var formlega stofnaður. Ráðist var í upptökur í apríl á síðasta ári í Stykkishólmskirkju og lauk þeim í nóvember sama ár. Hljóðvinnsla var í höndum Önnu Melsteð, László Petö og upptökumanna í Stúdíó Sýrlandi í Reykjavík. Anna og Eyþór Benediktsson komu að gerð 20 síðna bæklings sem fylgir geisladiskinum en textar eru bæði á ensku og íslensku og fallegar myndir frá feðgunum Eyþóri og Þorsteini auk Önnu prýða bæklinginn. Þegar kom að því að hljóðrita og gefa út geisladisk með söng kórsins í tilefni afmælisársins var ákveðið að flytja bæði kirkjulega og veraldlega tónlist. Við efnisvalið var horft annars vegar til sálma sem endurspegla sönginn í kirkjunni þessi 70 ár sem kórinn hefur starfað, og hins vegar var hugmyndin að syngja tónlist og texta eftir höfunda sem á einhvern hátt tengjast kórnum og átthögunum. Auk þess voru hljóðrituð tvö orgelverk leikin á nýja orgelið í kirkjunni. Nokkrir góðir gestir tóku þátt í gerð disksins og má þar helsta nefna tónlistarmennina Sigurð Flosason og Tómas R. Einarsson. Aukaefni frá tónleikum kórsins haustið 2012 þegar Hreiðar Ingi Þorsteinsson stjórnaði verki sínu Jómfrú Marie Dans, þar sem fjöldi gesta tóku þátt í flutningnum, er einnig að finna á disknum.

 

Screen Shot 2013-12-18 at 11.00.19

Ubi caritas et amor, deus ibi est.
Guð er þar sem kærleikurinn er og ástin. Þessi orð hæfa vel sem yfirskrift þessa geisladisks enda eru þau um margt lýsandi fyrir starfið í Kór Stykkishólmskirkju. Söngurinn er þjónusta við kirkjuna og trúarlíf safnaðarins á gleði- og sorgarstundum þar sem ást á tónlistinni og ánægjulegar samverustundir auðga líf kórfélaga.
Geisladiskurinn er fáanlegur hjá kórfélögum og er einnig til sölu í Anok margmiðlun ehf á Nesvegi 13. Hægt verður að nálgast diskinn víðar þegar líður á vorið.