Annir á Náttúrustofu Vesturlands

nsv-1-londrangar
Róbert við Lóndranga. Mynd: Facebook síða NSV

Á Náttúrustofu Vesturlands eru einkum stundaðar rannsóknir tengdar lífríkinu, en hlutverk hennar samkvæmt lögum eru að stunda gagnaöflun og vísindalegar rannsóknir á náttúrufari, að veita fræðslu sem hvetur til æskilegrar landnýtingar og náttúruverndar, að veita ráðgjöf og þjónustu á starfssviði sínu og hafa almennt eftirlit með náttúru landshlutans.

Vor og sumar eru aðallega notuð til gagnaöflunar í náttúrunni en vetrinum varið í úrvinnslu gagna og skrif, fyrirlestra- og fundahalds og í einhverjum tilfellum rannsóknastofuvinnu.

maelingar
Mælingar. Mynd: Facebook síða NSV

Náttúrustofan hefur helst stundað rannsóknir á fuglum (s.s. haförn, glókollur, bjargfuglar og mófuglar) og framandi, ágengum tegundum, t.d. mink og lúpínu, en meðal annarra umfangsmikilla verkefna er aðstoð við sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi við umhverfisvottunarverkefni þeirra og þjónusta við Breiðafjarðarnefnd.

Upp á síðkastið hafa starfsmenn Náttúrustofunnar skrifað greinar um fjölbreytt viðfangsefni, ýmist einir eða í samstarfi við aðra. Í vor kom út grein um minkinn í Breiðfirðingi, sem fjallaði um þróun stærðar minkastofnsins og mögulegar ástæður hennar. Þá er nýlokið við grein um landnám minksins, dreifingu hans um landið og stofnbreytingar síðustu áratugi, sem send hefur verið til birtingar í alþjóðlegu vísindariti. Einnig er nú lögð lokahönd á grein um fæðuval og búsvæðaval minka. Í sumar birtist í Náttúrufræðingnum ritrýnd grein um eyðingu lúpínu í Stykkishólmi, sem bar heitið Áhrif sláttar og eitrunar á lúpínubreiður og gróðurfar. Þar kom fram að reglulegur sláttur sé árangursríkastur til útrýmingar lúpínunnar, sem er mikilvægt að vita ef vilji er til að vernda innlendan gróður fyrir ágangi hennar. Á næstu dögum verður stór yfirlitsgrein um stofnhegðun ágengra tegunda send til alþjóðlegs vísindarits en hún er afrakstur samvinnu alþjóðlegs sérfræðingahóps um ágengar tegundir, sem starfsmenn Náttúrustofunnar taka þátt í. Þar að auki mun á næstu vikum birtast í ársriti Fuglaverndarfélags Íslands grein um eggja- og ungatöku Íslendinga.

Þessa dagana er svo unnið að drögum að efnismikilli áætlun um rannsóknir á stöðu þangs og þara í vistkerfi Breiðafjarðar og vöktun á mögulegum áhrifum nýtingar þörunganna, í samvinnu við Rannsóknasetur Háskólans og sérfræðinga á öðrum stofnunum. Er það gert í ljósi þess að til stendur að vinna talsvert meira af þangi og þara en gert er í dag. Þrátt fyrir að þang og þari við fjörðinn hafi verið nýtt í um 40 ár, hafa áhrif nýtingar á lífríkið ekki verið rannsökuð hérlendis. Samkvæmt Róberti A. Stefánssyni, forstöðumanni Náttúrustofu Vesturlands, er nauðsynlegt að kanna útbreiðslu, lífmagn og vaxtarhraða klóþangs og þara, líkt og Hafrannsóknastofnun gerir nú, en einnig þurfi að rannsaka áhrif þess á lífríkið í heild enda sé það mikilvægur hlekkur í lífkeðju Breiðafjarðar. Þetta sé bæði búsvæði fiska og smádýra auk þess að sjá þeim fyrir fæðu. Lögbundið hlutverk Náttúrustofunnar um að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd er einmitt hvatinn að þessu verkefni.