Ásbyrgi leitar að húsnæði

Hluti starfsmanna Ásbyrgis fyrir utan núverandi húsnæði
Hluti starfsmanna Ásbyrgis fyrir utan núverandi húsnæði.

Leitað er að húsnæði fyrir starfsemi Ásbyrgis í Stykkishólmi. Ásbyrgi er dagvinnustofa og atvinnutengd úrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu. Í dag er Ásbyrgi staðsett á Skólastíg 11a (gamla skólastjórabústaðnum) og er fyrir löngu búið að sprengja utan af sér. Vinnustofan þarfnast meira pláss með betra aðgengi. Í Ásbyrgi er hægt að kaupa ýmsar vörur sem starfsfólk hefur endurunnið, s.s. skálar úr vínylplötum veski úr kaffipokum. Allur varningur er til sýnis en hann tekur mikið pláss. Einnig þarf starfsfólk svæði til að vinna. Gert er ráð fyrir að Ásbyrgi þurfi húsnæði sem er um 300-400 fermetrar á einni hæð.

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga rekur Ásbyrgi auk Smiðjunnar í Ólafsvík. Smiðjan er staðsett í húsnæði á einni hæð og svipar til þess sem Ásbyrgi leitast eftir.

Í auglýsingu frá Félags- og skólaþjónustunni er tekið fram að mikil velvild og vinarhugur sé í garð Ásbyrgis, jafnt frá einstaklingum og fyrirtækjum. Vonast er til að sú velvild sem Ásbyrgi hefur unnið sér inn í samfélaginu skili sér í leitinni að betra húsnæði.