Bærinn fær hraðhleðslustöð

Sturla Böðvarsson tekur á móti hleðslustöðinni. Mynd: Friðrik V. Árnason
Sturla Böðvarsson tekur á móti hleðslustöðinni. Mynd: Friðrik V. Árnason

Orkusalan færði Stykkishólmsbæ hleðslustöð fyrir rafbíla mánudaginn 14. nóvember sl. Það er hluti af átaki Orkusölunnar til að stuðla að uppbyggingu innviða sem auðvelda rafbílavæðingu.

Gert er ráð fyrir því að stöðin muni rísa á bílastæðinu við íþróttahúsið en nákvæm staðsetning er ekki komin.

Einnig er búið að sækja um styrk frá Orkustofnun fyrir fjórum stöðvum sem gætu þjónustað átta bíla í einu. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið úthlutað úr sjóðnum. Sigurbjartur Loftson, skipulags- og byggingafulltrúi, segir að fái Stykkishólmsbær styrk úr þeim sjóð munu stöðvarnar rísa á góðum stöðum í bænum. Það er hans skoðun að þetta sé það sem koma skal.

Rafbílar njóta aukinna vinsælda á Íslandi og eru nú meira en 800 svoleiðis bílar í umferð á landinu samkvæmt frétt á Kjarninn.is. Bílar sem ganga fyrir bæði rafmagni, svokallaðir tvinnbílar, eru öllu vinsælli en fyrir ári síðan voru um 1.500 svoleiðis bílar í umferð.