Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Beðið í myrkri frumsýning í Rækjunesi

grimnirLeikfélagið Grímnir hefur nú komið sér fyrir í rúmgóðu húsnæði í gamla Rækjunesi á Reitarveginum. Húsnæðið er að vísu hrátt og þegar litið var inn í vikunni, frekar kalt þar inni. En það er hátt til lofts og vítt til veggja og gríðarlega miklir möguleikar í því. Það er Sigurjón Jónsson í Skipavík sem hefur útvegað leikfélaginu húsnæði til afnota. Væntingar leikfélagsfólks er að þarna megi í framtíðinni byggja upp góða geymslu- og sýningaraðstöðu fyrir leikfélagið og þannig geti starfsemin blómstrað í framtíðinni. Bjarki Hjörleifsson er formaður leikfélagsins Grímnis og segir hann að nú standi leikfélagið á nokkrum tímamótum. Fjárhagur félagsins hefur komist á réttan kjöl eftir nokkur hörð ár og nú sjáist fram á betri tíð. Það sé ósk núverandi stjórnar að þegar þessum áföngum er náð, fjármálin líti vel út og húsnæðismál félagsins leyst, takist að efla starfið og virkja nýtt fólk til að leiða vagninn áfram.
Í vetur réð leikfélagið Hinrik Þór Svavarsson til að setja upp verk á vegum leikfélagsins og hefur hann dvalið hér undanfarnar vikur við æfingar, uppsetningar á leikhúsinu, gerð sviðsmyndar og fleira með félögum í leikfélaginu. Leikverkið Beðið í myrkri er eftir bretann Frederick Knott en verk eftir hann hafa ratað í kvikmyndir eins og t.a.m. Hitchcock myndina Dial M for Murder. Að sögn Hinriks hafa æfingar og önnur vinna við verkið gengið ágætlega og er stefnt á frumsýningu þriðjudaginn 5. maí n.k. Hann segir ennfremur að húsnæðið sé spennandi og bjóði upp á marga möguleika. Í þessari uppsetningu sitja áhorfendur nálægt „leiksviðinu“. Leikritið er spennuleikrit þar sem inn í blandast leikfangadúkka, blind kona, afbrotamenn og fleiri. Verkið fjallar um blinda konu sem blandast óvart inn í innflutning á eiturlyfjum. Verkið var sýnt á áttunda áratugnum hjá Leikfélagi Akureyrar og er það í eina skiptið sem það hefur verið sýnt á Íslandi. 6 hlutverk eru í sýningunni og er aldur leikenda frá 16-22ja ára. Hinrik er að leikstýra í fyrsta sinn en útskrifaðist vorið 2013 frá Listaháskóla Íslands. Hann lætur vel af sér hér í Hólminum, þrátt fyrir að vera mikið borgarbarn. Helst hefur veðrið þó reynt á þolrifin í honum.
sp@anok.is