Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Björn Steinar, Bach og Björk

BSS2012Í kvöld fimmtudag, hefst sumar-tónleikaröð Stykkishólmskirkju með tónleikum Björns Steinars Sólbergssonar sem er organisti Hallgrímskirkju. Eins og margir vita þá eru tvö orgel á Íslandi frá þýsku Klaisorgelverksmiðjunni. Annað er staðsett í Hallgrímskirkju og er stærsta orgel á Íslandi hitt er hér í Stykkishólmskirkju, öllu minna. Það hefur staðið til síðan orgelið kom hingað í Stykkishólmskirkju að fá Björn Steinar hingað vestur og þrátt fyrir miklar annir við orgelleik víða um heim hjá Birni, var hægt að koma því svo fyrir að tónleikar í Stykkishólmi gætu orðið 11. júní. Efnisskrá Björns Steinars er mjög fjölbreytt og er að finna verk frá 17. öld til dagsins í dag. Gaman er að geta þess að á efnisskránni hjá Birni er verk eftir tónskáldið Huga Guðmundsson sem fæddur er 1977 og hefur getið sér mjög gott orð víða um tónlistarheiminn fyrir tónsmíðar sínar. Á efnisskránni eru einnig Rímnadansar Jóns Leifs og verk eftir Pál Ísólfsson sem Björn Steinar hefur umritað fyrir orgel.
Í sumar er orgelsumar í Hallgrímsskirkju og njótum við hér í Stykkishólmi góðs af því sem og tengslum organistans okkar Lázsló Petö en fyrir þeirra tilstilli fáum við orgeltónleika með organistanum János Kristofi sem kemur hingað til lands, seinna í sumar, til að leika í Hallgrímskirkju og Stykkishólmskirkju.
Unga tónlistarfólkið skipar sess í sumartónleikaröðinni í sumar. Djasstónlistin dunar þegar Skarkali Tríó og hljómsveitin 23/8 kemur fram í Stykkishólmskirkju. Þessir hópar eru skipaðir ungu og hæfileikaríku tónlistarfólki sem annars vegar leikur frumsamið efni og hinsvegar tónlist eftir Björk í eigin djassútsetningum.
Listvinafélagið tekur einnig þátt í Skotthúfuhátíðinni í Stykkishólmi sem fram fer 17.-19. júlí. Bryddað verður upp á margvíslegri dagskrá í tengslum við Skotthúfuna en margir samstarfsaðilar koma að þeirri hátíð og ber þar að nefna Norska húsið, Ingibjörgu Ágústsdóttur og Eldfjallasafnið. Dagskrána er verið að leggja lokahönd á þessa dagana og verður kynnt nánar síðar. Ljóst er þó að efnt verður til Skotthúfukeppni, þar sem áhugasamir útbúa skotthúfu á hvern þann veg sem þeir kjósa.
sp@anok.is