Danskir, menningarnótt og maraþon

Um helgina verður bæjarhátíðin Danskar dagar haldin í Stykkishólmi og markar sú hátíð oft á tíðum aðdraganda hausts hér í bæ. Sumarstarfsmenn fyrirtækja hverfa til annarra verkefna á þessum tíma og þjónustuframboð þjónustuaðila tekur oft á tíðum mið af því.

Um helgina er einnig menningarnótt í Reykjavík og í tengslum við hana er Reykjavíkurmaraþon. Í hlaupinu er hægt að hlaupa til styrktar málefnum af ýmsum toga og er eitt þeirra sem snertir við mörgum Hólmurum. Það er Styrktarsjóður Herdísar Maríu Daðadóttur. Herdís María er 2ja ára glaðlynd stelpa sem ber sterkan svip af sínu föðurfólki, en foreldrar hennar eru Daði Heiðar Sigurþórsson og Ingibjörg Anna Ingadóttir. Þegar Herdís var 11 mánaða fótbrotnaði hún og kom þá í ljós sjaldgæfur galli í sköflungsbeini sem nefnist Congenital Pseudarthrosis of Tibia (CPT). Gallinn veldur því að beinið grær ekki og er Herdís eina barnið á Íslandi með þennan sjúkdóm. Herdís þarf því að vera í spelku allan sólahringinn og er að læra að ganga m.a með hjálp göngugrindar.

Til stendur að Herdís María fari í kostnaðarsamar aðgerðir í Bandaríkjunum sem Sjúkratryggingar Íslands taka að litlum hluta þátt í, því hafa aðstandendur Herdísar stofnað styrktarfélag sem heitir Styrktarsjóður Herdísar Maríu. Tilgangur félagsins er að vera bakland Herdísar Maríu, greiða hvers kyns tilfallandi kostnað vegna veikindanna sem íslenska ríkið greiðir ekki og vinna að því að hún njóti sömu tækifæra og lífsgæða og önnur börn. Þegar þetta er skrifað hafa safnast rúmlega ein og hálf milljón króna í sjóðinn.

Allar nánari upplýsingar um styrktarsjóðinn má finna á Facebook undir #studfolkherdisar