Endurskinsmerkin mikilvæg

Það var jólalegt um að litast í vikunni þegar snjó kyngdi niður á götur bæjarins. Mandarínulykt og piparkökur í bland við fallandi snjókorn í ljósastauralýsingu minntu heldur betur á komandi jólatíð. Þá hafa nokkrir bæjarbúar þegar sett upp jólaljósin til að lýsa upp svartasta skammdegið.

Talandi um skammdegi.

Þegar myrkur ríkir mestan hluta sólarhringsins er brýnt að minna á endurskinsmerkin. Sérstaklega þegar færð á götum er ekki með besta móti. Mikil umferð gangandi vegfarenda yfir Aðalgötuna á morgnanna í bland við þunga bílaumferð (eins þunga bílaumferð og rúmlega 1.100 manna bæjarfélag getur boðið upp á) getur endað með ósköpum ef ekki er varlega farið í hálku og myrkri.

Samkvæmt vef Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sjást þeir sem bera endurskinsmerki allt að fimm sinnum fyrr en þeir sem ekki ganga með þau. Mikilvægt er að þau sjáist í ljósgeislum bifreiða hvort sem einstaklingur snúi að bílnum eða frá. Best er að hafa merkin neðarlega og allar skólatöskur ættu að hafa slík merki. Á barnavögnum skulu merki ná allan hringinn.

Förum varlega í umferðinni, flýtum okkur hægt og sjáum til þess að vera sýnileg í skammdeginu.