Ferðaþjónusta á Snæfellsnesi í sókn

Mannamót, fundur markaðstofa landshlutanna, var haldinn í Reykjavík fimmtudaginn 19. janúar. Á fundinn mæta samstarfsfyrirtæki markaðsstofanna og kynna starfsemi sína fyrir aðilum í ferðaþjónustu. Var þetta í 4. skipti sem fundurinn er haldinn. Alls voru 210 fyrirtæki með bása og voru gestir yfir daginn um 7-800 talsins.

Kristján Guðmundsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Vesturlands, segir að fundurinn hafi gengið ljómandi vel. Aldrei hafa fleiri fyrirtæki tekið þátt frá Vesturlandi en alls voru þau 35, þar af voru 16 af Snæfellsnesi. Hann segir að líklega sé þetta einn stærsti viðburður þessarar tegundar sem ferðaskrifstofur og leiðsögumenn sækja og á þar við viðburð þar sem hægt er að hitta fulltrúa fyrirtækja í ferðaþjónustu á landsbyggðinni á einu bretti. Þarna mæta helstu aðilar í ferðaþjónustunni til að sjá hvað landsbyggðin hefur upp á að bjóða og má merkja af þessum fundum að áhugi er að aukast.

Samkvæmt Kristáni var stöðugur straumur gesta að básum fyrirtækja frá Vesturlandi. „Kræsingarnar sem voru í boði skemmdu ekki fyrir.” bætir hann við.

Spurður út í hvort Vesturland og þá sér í lagi Snæfellsnes sé í sókn segir hann svo vera. Áhugi á svæðinu virðist aukast sem fylgi aukinni umfjöllun og meiri þekkingu.

„En hvað hefur Vesturland fram yfir aðra landshluta?”

Svarar Kristján á þá leið að á Vesturlandi sé hægt að sjá fjölbreytta náttúru á tiltölulega litlu svæði, t.d. megi finna allar bergtegundir landsins á Snæfellsnesi. Hér sé mikil saga sem dýpki upplifun ferðamanna á svæðinu. Einnig má segja að nálægð við höfuðborgarsvæðið hafi sitt að segja. Yfir veturinn stoppa ferðamenn skemur á landinu og halda sig jafnan á SV-horninu. Sjaldan er ófært á Vesturlandið og því auðvelt fyrir ferðamenn sem eru á SV-horninu að skjótast í stuttar ferðir um landshlutann.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af fundinum.

This slideshow requires JavaScript.