Fjárlög 2014 og Stykkishólmur

Það er ekki endlega venjan að á þessum vettvangi sé mikið rætt um fjárlög ríkisins. En þar sem þau voru mál málanna daginn sem blaðið var í vinnslu þá vakti það forvitni undirritaðrar hvernig þau litu út svona í augum leikmanns og þá í tengslum við svæðið. Á vefnum fjarlog.is eru allar upplýsingar og gríðarlega mikið af efni til lestrar.
Þegar skoðaður hluti velferðarráðuneytis kemur í ljós, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að taka á upp legugjöld og sameina á heilbriðgisstofnanir á landsbyggðinni svo fátt eitt sé talið. Það er vikið að málefnum HVE og einnig sjúkrahússins hér í bæ með óyggjandi hætti: “Þá falla niður 170 m.kr. tímabundnar fjárveitingar sem veittar voru í fjárlögum 2013 til að ljúka við hönnun á húsakosti Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en ákveðið hefur verið að falla frá þessum framkvæmdum.” Fjárlagafrumvarpið er tyrfið yfirlestrar en tilvitnunin er skýr hér að ofan og öllum ljós. Felld er út fjárveiting í fjárlögum og hjá ráðuneyti. Vissulega á eftir að taka frumvarpið til fyrstu og annarrar umræðu og vonandi breyta þær einhverju um þetta mál.
Lækkun til sjúkrasviðs HVE nemur 43,8 m.kr. árið 2014 og ekki er við fyrstu sýn að sjá að það eigi að leggja aukið fé til reksturs Háls- og bakdeildar hér í Stykkishólmi.
Af öðrum liðum hjá öðrum ráðuneytum, má sjá að framlag til farþegaferjunnar Baldurs lækkar um 4 m.kr. framlög til Sýslumanns Snæfellinga hækka um 10.7 m.kr. m.a. vegna hraðamyndavélaúrvinnslu. Svo virðist sem framlög til vaxtar- og menningarsamninga á landsbyggðinni séu óbreytt frá fyrra ári. Framlög til framkvæmdasjóðar ferðamannastaða lækka úr 575,6 m.kr. í 216,6 m.kr. á milli ára. Framlag til náttúrustofa hækkar um 2.6 m.kr. á milli ára. Fleira má eflaust tína til sem tilheyrir svæðinu – en frumvarpið er rétt nýkomið fram og kynning og umræður um það og breytingartillögur eftir að koma fram. Þá eru það helst þingmenn kjördæmisins sem gætu haft áhrif til breytinga fyrir
svæðið.
Það er óhætt að benda á vefinn datamarket.com, neðst er hægt að velja íslensku, þar eru gögn frumvarpsins sett fram myndrænt og auðveldara að glöggva sig á öllum þessum tölum.