Fjölmenningarhátíð á Snæfellsnesi

Kræsingar/Mynd: FB-síða Átthagastofu Snæfellsbæjar
Kræsingar/Mynd: FB-síða Átthagastofu Snæfellsbæjar

Fjölmenningarhátíð var haldin 15. október sl. í Frystiklefanum á Rifi. Var þetta í annað skiptið sem hátíðin var haldin.

Að sögn Ragnhildar Sigurðardóttur, framkvæmdastýru Svæðisgarðsins Snæfellsnes, gekk allt saman vonum framar. Fólk mætti af öllu Snæfellsnesi og ætla má að met hafi verið sett í mætingu í Frystiklefann þegar u.þ.b. 600 manns komu á hátíðina. Til samanburðar má nefna að um 350 manns mættu á hátíðina í fyrra.

Ragnhildur segir að í miklu fjölmenningarsamfélagi séu svona viðburðir mikilvægir. Íbúar sjái fjölbreytileikann sem miklu frekar ætti að sameina okkur, frekar en hólfa okkur niður. Hún segir það eftirtektarvert að nú sé talað um okkur frekar en við og þau. Á Landnemaskólinn þar miklar þakkir fyrir. Er það íslenskunám hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands á Snæfellsnesi fyrir íbúa erlendis frá.

Meðal þess sem var á boðstólnum á fjölmenningarhátíðinni í ár voru kynningar íbúa á heimalöndum sínum, ýmis handverk, búningar og margt fleira. Nemendur í Grunnskóla Snæfellsbæjar kynntu svo verkefni sem þau höfðu unnið í tengslum við hátíðina.