Fögnuður Hestamannafélags

Uppskeruhátíð Hestamannafélagsins Snæfellings fór fram um sl. helgi í Félagsheimilinu Klifi, Ólafsvík.

Eins og gengur og gerist á uppskeruhátíðum voru verðlaun veitt fyrir góðan árangur á árinu í ýmsum greinum. Vel var mætt og mikið fjör hjá hestafólki sem hefur undanfarið staðið í ströngu við að reisa reiðskemmur á Snæfellsnesi auk annarra verkefna. „Hestamenn finna sér alltaf eitthvað að gera” segir Herborg Sigurðardóttir, ritari félagsins, í samtali við blaðamann.

Ræktunarbú ársins var Berg og titilinn Knapi ársins hlaut Siguroddur Pétursson.

Mynd: Facebook
Mynd: Facebook

Nadine E. Walter hlaut Þotuskjöldinn fyrir æskulýðs- og unglingastarf með félaginu. Þotuskjöldurinn er veittur fyrir góð störf í þágu félagsins ár hvert og er ekki alltaf bundinn við æskulýðsstarf. Árlega er Þotuskjöldurinn afhentur þeim félagsmanni sem skarað hefur fram úr á sviði ræktunar, reiðmennsku eða félagsmála. Skjöldurinn er verðlaun sem Leifur Kr. Jóhannesson f.v ráðanautur gaf félaginu til minningar um hryssu sína Þotu frá Innra-Leiti. Fyrstur til að hljóta skjöldinn var Högni Bæringsson árið 1994.

Í félaginu eru 266 félagsmenn allsstaðar af Snæfellsnesi.